Söngkeppni evrópskra sjónvarpsstöðva (e. Eurovision) var haldin í fyrsta sinn þann 24. maí árið 1956. Keppnin í Lissabon í Portúgal þetta árið er því sú 63. í röðinni, en Portúgal vann keppnina í fyrsta sinn í fyrra þegar Salvador Sobral heillaði áhorfendur upp úr skónum með einlægum flutningi sínum á laginu Amar Pelos Dois.
Í kvöld stígur keppandi Íslands í ár, Ari Ólafsson, á svið í Lissabon og flytur lagið „Our Choice“ á fyrra undanúrslitakvöldi keppninnar. Undanúrslitakvöld var fyrst tekið upp árið 2004 eftir að löndum sem vildu taka þátt hafði stanslaust fjölgað allt frá lokum kalda stríðsins, en undanúrslitakvöldin urðu svo tvö árið 2008.
Öll löndin þurfa nú að taka þátt í undanúrslitum fyrir utan „stóru fimm“ löndin sem leggja mest til keppninnar: Spánn, Þýskaland, Ítalía, Frakkland og Bretland. Þá þurfa gestgjafarnir, Portúgalar, sem sigruðu keppnina á síðasta ári, heldur ekki að etja kappi undankeppninni.
Löndin sem keppa í kvöld, á fyrra undanúrslitakvöldinu, eru nítján talsins og stíga á svið í þessari röð: Aserbaídsjan, Ísland, Albanía, Belgía, Tékkland, Litháen, Ísrael, Hvíta-Rússland, Eistland, Búlgaría, F.Y.R. Makedónía, Króatía, Austurríki, Grikkland, Finnland, Armenía, Sviss, Írland og Kýpur.
Tíu stigahæstu löndin úr hvorum undanúrslitariðli fá svo að taka þátt í lokakeppninni. Áhorfendur frá þeim löndum sem keppa í hvorum undanúrslitariðli kjósa sitt uppáhaldslag með símtali eða smáskilaboðum og hver og einn getur kosið allt að 20 sinnum. Atkvæði áhorfenda gilda svo 50% á móti atkvæðum dómnefndar.
Dómararennsli fyrri undanúrslitakvöldsins fór fram í gærkvöldi, þegar 110 dómarar frá 22 löndum horfðu á keppnina til að meta frammistöðu keppenda og gefa þeim stig.
Riðillinn sem Ari keppir í í kvöld þykir sérstaklega sterkur, en í honum eru nokkur þeirra landa sem spáð er efstu sætum lokakeppninnar. Þar má t.d. nefna Kýpur sem hoppaði upp fyrir Nettu frá Ísrael í veðbönkum eftir dómararennslið í gær.
Lagi Íslands er ekki spáð sérlega góðu gegni í keppninni í ár, en samkvæmt veðbönkum lendir Ari í 40. sæti af þeim 43 löndum sem taka þátt í ár. Veðbankar segja þó ekki allt og við Íslendingar krossum fingur yfir því að Ari nái til Evrópubúa á sama hátt og hann náði til íslensku þjóðarinnar í Söngvakeppni Sjónvarpsins.
Hægt verður að fylgjast með keppninni á samfélagsmiðlum undir myllumerkjunum #Eurovision og #AllAboard.