Vill gera þætti um Auði djúpúðgu

Vilborg Davíðsdóttir hefur ritað þrjár bækur um Auði djúpúðgu.
Vilborg Davíðsdóttir hefur ritað þrjár bækur um Auði djúpúðgu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Leikstjórinn og framleiðandinn Bjarni Haukur Þórsson og sænskt framleiðslufyrirtæki hans, Thorsson Produktion AB, hefur keypt kvikmynda- og sjónvarpsréttinn að bókum Vilborgar Davíðsdóttur um Auði djúpúðgu Ketilsdóttur með það að markmiði að framleiða alþjóðlega sjónvarpsþáttaröð um sögu landnámskonunnar, byggða á bókunum Auður, Vígroði og Blóðug jörð.

Bjarni segir verkefnið afar spennandi en segist lítið geta sagt um það á þessu stigi. „Við erum í viðræðum við aðila,“ segir hann og að verkefnið sé í ferli. „Þetta getur gerst mjög fljótt en þetta getur líka tekið langan tíma, það hangir svo margt á spýtunni,“ bætir hann við og bendir á að gerðar hafi verið kostnaðarsamar sjónvarpsþáttaraðir sem gerist á tímum víkinga og hafi notið mikilla vinsælda víða um heim, t.d. þáttaröðin Vikings.

Stórbrotin saga

Bjarni segir áhuga fólks víða um heim á sögulegum, dramatískum sjónvarpsþáttum fara vaxandi og þá m.a. í Suður-Ameríku og Asíu. „En fyrir utan það hef ég verið að leita að svona verkefni af stærri gerðinni í nokkurn tíma og svo er ég persónulega mikill áhugamaður um Auði og hennar sögu,“ segir Bjarni og nefnir sem dæmi hvernig Auður hóf búskap á Íslandi, að hún hafi gefið fólki sínu land og gert hlutina dálítið öðruvísi en karlarnir. „Þetta er stórbrotin saga af konu sem lætur karlana ekki kúga sig,“ segir Bjarni og að þó saga Auðar gerist fyrir rúmum ellefu hundruð árum sé áhugavert að skoða samfélag okkar í dag út frá því. „Við erum ennþá að fást við sömu hlutina,“ segir Bjarni og nefnir sem dæmi kúgun kvenna, átök milli ólíkra trúarhópa, stríð og landflótta vegna stríðsátaka.

Til stendur að taka þættina upp í Skotlandi, á Írlandi og Íslandi og verður sagan sögð frá sjónarhóli konu, Auðar. „Það hafa verið gerðar svo margar víkingaseríur um karla, nú er komið að því að gera þetta út frá konunni og hver er betur til þess fallin en hún Auður?“ er haft eftir Bjarna í tilkynningu og að þættirnir verði að öllum líkindum á ensku.

Bjarni Haukur Þórsson, leikstjóri og framleiðandi.
Bjarni Haukur Þórsson, leikstjóri og framleiðandi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Á heima á skjá eða tjaldi

„Ég hef ekki tölu á því hversu margir hafa haft orð á því við mig eftir að fyrsta bókin kom út árið 2009, að þetta væri efni sem ætti heima á sjónvarpsskjá eða bíótjaldi vegna þess að þetta er svo epískt. Þetta er saga af samfélagi og heilli kynslóð og þetta eru svo dramaískir atburðir,“ segir Vilborg, spurð að því hvernig það leggist í hana að bækurnar hennar verði mögulega að sjónvarpsþáttum og hvort hún hafi séð það fyrir sér. „Fólk flyst yfir hafið og allir þessir stórkostlegu atburðir tengjast landnámssögu Íslands. Þó Auður sé frásagnarmiðja þá er þetta saga af því hvernig þjóð verður til,“ segir hún. Vilborg segir að þó fólk sjái Auði fyrir sér í anda sem drottningu sem hafi farið yfir Atlantshafið þá sé saga hennar í raun saga konu á flótta sem hafi komið börnum sínum og barnabörnum í skjól á ófriðartímum og í því megi finna tengingu við samtímann. Hún segir sögurnar þrjár í raun of mikið efni til að rúmast í einni kvikmynd og því henti sjónvarpsþáttaformið þeim betur.

Eins og stödd í bíómynd

Vilborg er spurð að því hvort hún sjái atburði fyrir sér myndrænt í huganum þegar hún sé að skrifa og svarar hún því til að þegar hún sé að skrifa sé hún inni í atburðarásinni og horfi í kringum sig. „Ég hef alltaf lagt mig mjög mikið eftir því að hafa myndrænar lýsingar og margir hafa haft orð á því að sögurnar eru þannig að þú átt að geta gengið inn í þennan heim, þetta á að vera eins og gluggi inn í fortíðina. Þú stígur inn í heiminn, sérð litina og náttúruna og finnur bragðið, færð reykinn í nefið og finnur áferðina. Þegar ég skrifa er eins og ég sé stödd inni í bíómynd, ef þannig má að orði komast,“ segir Vilborg. Þegar hún lýsi bardaga fái lesandinn blóðið í andlitið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér hættir til í hita augnabliksins að missa stjórn á skapi þínu, sem er ekki gott. Gakktu hægt um gleðinnar dyr og mundu að á morgun er nýr dagur með nýjum tækifærum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Kathryn Hughes
3
Torill Thorup
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Steindór Ívarsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér hættir til í hita augnabliksins að missa stjórn á skapi þínu, sem er ekki gott. Gakktu hægt um gleðinnar dyr og mundu að á morgun er nýr dagur með nýjum tækifærum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Kathryn Hughes
3
Torill Thorup
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Steindór Ívarsson
Loka