Fyrirsætan og raunveruleikastjarnan Kendall Jenner virðist vera hrifin af körfuboltamönnum. Ekki er langt síðan að hún hætti með körfuboltamanninum Blake Griffin og er hún nú sögð vera að hitta körfuboltamanninn Ben Simmons.
Heimildamaður Page Six segir að ástarsamband Jenner og Simmons hafi byrjað fyrir nokkrum vikum. Jenner sást með körfuboltakappanum í þessari viku í hádegismat á hóteli í Beverly Hills en í síðustu viku sáust þau skemmta sér saman á skemmtistað á Manhattan.
Jenner virðist því hafa svipaðan smekk á karlmönnum og systir hennar, Khloé Kardashian. Hún var gift körfuboltamanninum Lamar Odom og er nýbúin að eignast barn með öðrum körfuboltamanni, Tristan Thomspon. Reyndar var önnur systir Jenner líka gift körfuboltamanni en árið 2011 sótti Kim Kardashian um skilnað frá körfuboltamanninum Kris Humphries eftir 72 daga hjónaband.