Stefán Karl Stefánsson og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir hlutu fyrir stundu Stefaníustjakann þegar hann var afhentur í 26. sinn við hátíðlega athöfn í Tjarnarbíói. Stefaníustjakanum fylgir styrkur úr Minningarsjóði frú Stefaníu Guðmundsdóttur leikkonu og hlutu styrkþegar 850 þús. kr. hvort um sig.
Minningarsjóður frú Stefaníu Guðmundsdóttur var stofnaður árið 1938 af hjónunum Önnu Borg og Poul Reumert til að efla íslenska leiklist og heiðra um leið minningu Stefaníu Guðmundsdóttur, móður Önnu Borg. Úthlutað var úr sjóðnum í fyrsta sinn 1970 og síðan hafa alls 50 listamenn hlotið styrk. Samkvæmt upplýsingum frá sjóðnum er styrkurinn í senn viðurkenning á góðum árangri styrkþega og ferðastyrkur.
„Þessi viðurkenning hefur mikla og jákvæða þýðingu fyrir mig, enda vegleg viðurkenning. Þessi styrkur hefur verið veittur í áratugi og það er því mikill heiður að hljóta hann,“ segir Stefán Karl og rifjar upp að þetta sé önnur viðurkenningin sem hann hlýtur á leiklistarferli sínum, en fyrir nokkrum árum hlaut hann styrk úr sjóði Thorbjørns Egners.
Að sögn Stefáns Karls munu þau Steinunn Ólína nýta styrkinn til að skoða leikhús erlendis. „Fyrsta ferðin verður farin í júlí, en þá er ætlunin að sjá Ian McKellen í hlutverki Lés konungs í London,“ segir Stefán Karl og tekur fram að þau Steinunn Ólína hafi verið dugleg að skoða leikhús erlendis á umliðnum árum og nefnir í því samhengi Theatertreffen í Berlín.
„Ég er mjög upp með mér að fá þessa viðurkenningu og er staðráðin í því að nýta þetta bæði til þess að sjá gott leikhús og víkka sjóndeildarhringinn,“ segir Steinunn Ólína og bendir á að stór hluti af starfi leikara sé að fara í leikhús og sjá aðra leikara vinna, skoða uppsetningar leikstjóra og fylgjast með öðrum listgreinum. „Við höfum undanfarin ár verið dugleg að skoða leikhús í Bretlandi, en mig langar til að skoða leikhús víðar, sérstaklega í Austur-Evrópu “ segir Steinunn Ólína og nefnir í því samhengi Rússland og Eystrasaltslöndin.
Steinunn Ólína sneri eftir áralangt hlé aftur á leiksviðið í uppfærslu Þjóðleikhússins á Efa á liðnum vetri. Spurð hvort leikhúsgestir fái að njóta hæfileika hennar á næsta leikári svarar hún því játandi. „Ég er byrjuð að æfa gamanleikrit með Ólafíu Hrönn sem nefnist Fly Me To The Moon eftir Marie Jones,“ segir Steinunn Ólína, en Jones skrifaði einnig Með fulla vasa af grjóti sem Stefán Karl og Hilmir Snær Guðnason sýndu við miklar vinsældir hérlendis, seinast í haust.
„Þetta er afskaplega skemmtilegt leikrit um tvær konur sem vinna í heimahlynningu. Einn vinnudaginn lenda þær í mjög óvæntum kringumstæðum sem verður til þess að þær sjá sér leik á borði að auðgast svolítið með ófyrirséðum og skelfilegum afleiðingum þar sem þær bókstaflega taka verstu mögulegu ákvörðun í hverju skrefi,“ segir Steinunn Ólína, en leikritið, sem er frá 2012, verður frumsýnt í Kassanum í haust í leikstjórn höfundar.
Nánar er rætt við styrkþega ársins í Morgunblaðinu á morgun, laugardag.