Daníel Bjarnason, tónskáld og höfundur óperunnar Brothers, eða Bræður, sem Íslenska óperan sýndi nú í kvöld í samstarfi við Jósku óperuna og Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborg Hörpu á Listahátíð í Reykjavík hlaut í kvöld dönsku sviðslistarverðlaunin fyrir óperu ársins.
Brothers, sem fjallar um stríð, bræðralag og ástir, byggist á samnefndri kvikmynd eftir Susanne Bier. Með hlutverk bræðranna í verkinu fara Oddur Arnþór Jónsson og Elmar Gilbertsson, en í öðrum hlutverkum eru Marie Arnet, Þóra Einarsdóttir, James Laing, Jakob Zethner, Hanna Dóra Sturludóttir, Selma Buch Ørum Villumsen og Paul Carey Jones. Leikstjórn er í höndum Kaspers Holten, leikmyndina gerði Steffen Aarfing og lýsingu hannaði Ellen Ruge.
Brothers var frumsýnd í Árósum í ágúst 2017 við afar góðar viðtökur jafnt áhorfenda sem gagnrýnenda. Uppfærslan fékk fullt hús stiga hjá Cphpost þar sem rýnir hrósaði tónlistinni í hástert og sagði að tónlist Daníels væri „mögnuð. Tónlistin, sem hefur yfirbragð kvikmyndatónlistar, flytur hlustendur yfir í aðra veröld.“