Leikkonan Sophia Bush, sem þekktust er fyrir að hafa leikið Brooke Davis í þáttunum One Tree Hill, sagði í útvarpsviðtali við Andy Cohen á SiriusXM að hún hafi fundið fyrir þrýstingi til að giftast meðleikara sínum Chad Michael Murray árið 2005.
Þau kynntust þegar þau léku saman í þáttunum One Tree Hill sem sýndir voru á árunum 2003-2012. Þau trúlofuðust árið 2004 og giftu sig svo í apríl 2005. Fimm mánuðum seinna höfðu þau svo slitið samvistir og í desember 2006 skildu þau.
Bush var aðeins 22 ára þegar þau giftust og Murray 23 ára. Bush segir að aldurinn hafi leikið stórt hlutverk í því af hverju þau ákváðu að slíta sambandinu. Hún segir að þau hafi verið allt of ung til að vera yfir höfuð í sambandi. Hún sagði að hún hafi ekki viljað giftast honum en hafi sagt já því hún vildi ekki heldur valda öllum vonbrigðum.
Talsmaður Murray hefur komið honum til varnar og segir að Murray hafi aðeins kvænst henni vegna þess að hann elskaði hana. Murray kvæntist leikkonunni Sarah Roemer árið 2015 og eiga þau tvö börn saman. Talsmaður Murray sagði að hann hefði engan áhuga á að tala um fyrrverandi hjónaband þeirra Bush í fjölmiðlum.