Kanadíski tónlistarmaðurinn Justin Bieber bað unnustu sinnar, Hailey Baldwin, í gærkvöldi og hún sagði já, að minnsta kosti segir TMZ-vefurinn það.
Hailey Baldwin, sem er 22 ára gömul, starfar sem fyrirsæta og leikkona og hefur meðal annars leikið í myndinni Ocean's Eight. Hún er dóttir Stephen Baldwin og Kennya Baldwin og því frænka Alec Baldwin, William Baldwin og Daniel Baldwin.
TMZ vísar í tvö vitni sem segjast hafa fylgst með bónorðinu á Bahama-eyjum í gærkvöldi. Þau segja að allir sem voru á veitingastaðnum þar sem bónorðið fór fram hafi verið að dansa salsa þegar öryggisverðir Bieber báðu viðkomandi um að leggja símana frá sér því dálítið sérstakt væri í vændum.
TMZ-vefurinn segir að parið hafi verið nánast óaðskiljanlegt allt frá því ástarsamband þeirra hófst fyrir mánuði. Tekið er fram í fréttinni að þau hafi samt þekkst lengur enda hafi þau verið par um tíma áður. Jafnvel oftar en einu sinni því þau eigi að hafa tekið upp þráðinn að nýju um tíma eftir að Bieber og Selena Gomez hættu saman.
Faðir Justins, Jeremy Bieber, birti mynd á samfélagsmiðli sínum í dag þar sem hann getur vart beðið eftir næsta kafla í lífi söngvarans. Móðir Justins, Pattie Mallette, tekur í svipaðan streng því hún skrifar á Twitter: Ást, ást, ást, ást, ást, ást, ást.“