Raunveruleikaþáttastjarnan Kim Kardashian West heimsótti kvennafangelsið í Corona í Kaliforníu á föstudag. Samkvæmt heimildum TMZ kom Kim í fangelsið síðdegis á föstudag og eyddi nokkrum klukkustundum með föngunum. Hún skoðaði aðstöðuna og ræddi við 15 fanga um lífið í fangelsi og hvað þær ætli að gera þegar þær losna.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Kim sýnir konum í fangelsi áhuga en fyrr á árinu hitti hún forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, og ræddi við hann um fangelsismál og refsingar. Stuttu síðar mildaði Trump dóm yfir Alice Marie Johson, langömmu á sjötugsaldri, sem hlaut lífstíðardóm fyrir minni háttar fíkniefnabrot fyrir tugum ára.