Söngkonan Demi Lovato var flutt á spítala í Los Angeles vestanhafs í dag vegna gruns um að hún hefði tekið of stóran skammt af heróíni.
TMZ-vefurinn hefur það eftir lögreglu að söngkonan hafi verið flutt með hraði á spítala frá heimili sínu í Hollywood en ekki er vitað hvernig ástand hennar er.
Lovato var gefið lyfið Narcan sem notað er til að sporna við of stórum skammti af deyfilyfjum.
Lovato, sem er 25 ára gömul, hefur glímt við átröskun og fíknisjúkdóma allt frá því að hún var táningur. Hún hafði verið edrú í sex ár í mars síðastliðnum en sendi frá sér lag í síðasta mánuði þar sem fram kemur að hún hafi fallið.