Elínrós Líndal
Fjórir íslenskir íþróttamenn hafa tekið höndum saman með stuðningi Toyota á Íslandi undir yfirskriftinni „Start your impossible“. Er markmið þeirra að komast á ólympíumót fatlaðra í Tókýó í Japan árið 2020.
Íslensku íþróttamennirnir eru Arna Sigríður Albertsdóttir (handhjólreiðar), Már Gunnarsson (sund), Stefanía Daney Guðmundsdóttir (400 metra hlaup & langstökk) og Patrekur Andrés Axelsson (100 og 200 metra spretthlaup).
Toyota á Íslandi undirritaði á dögunum samstarfssamning við Íþróttasamband fatlaðra, einn þann viðamesta sem fyrirtækið hefur tekið þátt í síðustu áratugi.
Samkvæmt upplýsingum frá Toyota tekur fyrirtækið þátt í þessu verkefni vegna þess að ólympíuviðburðir snúast um hreyfanleika, burtséð frá aðstæðum og líkamlegu atgervi þeirra íþróttamanna sem þar keppa, og markmið ólympíuhugsjónarinnar – að nýta íþróttir í þágu samlyndrar framþróunar mannkyns. Þetta slái sameiginlegan tón með markmiðum og gildum Toyota.
Morgunblaðið mun fylgja þessum fjórum íþróttamönnum eftir næstu árin, meðal annars með viðtölum við þau og fréttum á samfélagsmiðlum, í Morgunblaðinu og á mbl.is. Eins verða sýnd myndbönd sem gefa dýpri innsýn í heim íþróttamannanna og hvernig þeim gengur að ná þeim markmiðum sem þau stefna að.