Tekur tíma, þolinmæði og þrjósku

Arna Sigríður Albertsdóttir var 16 ára gömul þegar hún hlaut mænuskaða í skíðaslysi í Noregi en þar var hún í æfingaferð með félögum sínum og þjálfurum í Skíðafélagi Ísafjarðar. Nokkrum árum eftir slysið var Arna komin á stað sem margir íslenskir hjólareiðamenn hafa látið sig dreyma um, að keppa á stórmótum í hjólreiðum en Arna keppir í handahjólreiðum.

Arna er ein þeirra fjögurra íslensku íþróttamanna sem „stefna að hinu ómögulega“ með því að komast á Ólympíumót fatlaðra í Tókýó í Japan árið 2020 en Morgunblaðið og mbl.is munu fylgja þessum íþróttamönnum eftir næstu árin fram að keppni. Arna og hinir íþróttamennirnir, Már Gunnarsson sundmaður, Stefanía Daney Guðmundsdóttir, hlaupakona og langstökkvari, og Patrekur Andrés Axelsson spretthlaupari eru nýbyrjuð í herferð með Íþróttasambandi fatlaðra og Toyota sem ber yfirskriftina „Start your impossible“ en öll eiga þau möguleika á að komast á ólympíumót fatlaðra eftir tvö ár og stefna ótrauð þangað. Sú herferð snýst jafnframt um að skora á alls konar fólk að setja sér markmið sem virðast jafnvel ómöguleg.

„Ég er fædd og uppalin á Ísafirði og þar er íþróttamenningin mikil og allir æfa íþróttir. Ég var í æfingaferð í Geilo í Noregi 30. nóvember 2006 þegar ég lenti í alvarlegu slysi sem breytti lífi mínu,“ segir Arna Sigríður.

„Það sagði enginn beint við mig strax; þú ert með mænuskaða og getur líklega aldrei gengið aftur sem ég held líka að hafi verið gott en læknarnir gáfu mér átta mánaða glugga, bólgurnar í mænunni gætu hugsanlega hjaðnað og eitthvað breyst en gerðu mér grein fyrir að þetta liti mjög illa út. Ég fékk því að átta mig á stöðu minni hægt og bítandi og fyrstu árin var það afar erfitt enda var ég bara barn og hafði ekki tekið út minn andlega þroska. Ég bara ætlaði ekkert að vera mænusköðuð.“

Arna Sigríður Albertsdóttir.
Arna Sigríður Albertsdóttir. Árni Sæberg

Fyrir vestan var lítið framboð af íþróttaiðkun fyrir fatlaða. „Það var eiginlega bara sund og sundlaugarnar voru heldur ekki aðgengilegar. Nokkrum árum eftir slysið pantaði ég mér handahjól á netinu og var eitthvað aðeins byrjuð að prófa það þegar ég flutti suður en þá voru vinkonur mínar flestar fluttar suður og ég vissi að möguleikar mínir væru meiri þar. Það er ekki að það sé alls staðar frábær aðstaða eða aðgengi í Reykjavík fyrir fatlaða, oft er það mjög slæmt, en samfélagið er stærra og fleiri möguleikar. Þegar ég kom suður byrjaði ég í einkaþjálfun hjá Fannari Karvel íþróttafræðingi sem breytti lífi mínu en þá hófst mikil andleg og líkamleg uppbygging.“

Þegar Arna var búin að vera hjá honum í styrktaræfingum í nokkurn tíma stakk Fannar Karvel upp á að þau færu að prófa hjólið af alvöru en þá voru fimm ár liðin frá slysinu.

„Hjólið hentar mér frábærlega og því fylgir mikið frelsi. Á hjólastól er oft erfitt að komast leiðar sinnar, það eru þrep og tröppur alls staðar og ég kemst frekar yfir slíkt á hjólinu og góðir hjólastígar eru víða þannig að ég kemst langt á eigin vegum. Yfir sumarið er ég meira úti en á veturna þjálfa ég innandyra á trainer sem er tengdur við hjólið og gefur mótstöðu. Þetta er ekki langur tími sem ég get æft utandyra því ég hef ekki stjórn á hita og kulda í líkamanum svo ég þarf að vera sérstaklega vel klædd og fara strax í heita sturtu eftir æfingu. Æfingarnar í sumar hafa því verið extra áskorun út af veðrinu.“

Upplifi sterkt að vera heppin

Arna keppti á sínu fyrsta móti haustið 2014 og fór þá að stunda hjólreiðarnar af alvöru.

„Það munaði ótrúlega miklu fyrir mig því þá kynntist ég fleirum sem voru í þessu. Hér heima var ég alein þegar ég byrjaði, mögulega voru til einhver önnur handahjól en ég þekkti a.m.k. engan annan sem var á svona hjóli. Bara að hitta aðra og sjá þá hjóla og tengjast þessu samfélagi var frábært en í þessu samfélagi eru hjólreiðamenn frá Mið-Evrópulöndunum áberandi. Þetta samfélag er nett klikkað!“ segir Arna og hlær en ólíkt og í mörgum öðrum íþróttagreinum eru bestu hjólareiðakonurnar komnar yfir fimmtugt og verða aðeins betri og betri með aldrinum.

Til að vera góður handreiðhjólamaður þurfa íþróttamennirnir nefnilega að vera afar góðir í að pína sig því íþróttin snýst fyrst og fremst um úthald og þá hugarfarið; að geta haldið út. Slíkt þjálfast mikið með aldrinum og sú besta í greininni er fædd 1965. Arna segist því eiga fullt inni, en Arna hefur meðal annars hafnað í 1. sæti í sínum flokki í handahjólreiðakeppni í Abú Dabí.

Arna á ferð um landið á handahjólinu.
Arna á ferð um landið á handahjólinu.



„Ég keppti núna síðast á móti í Hollandi í vor en ég þurfti að fara í aðgerð í vor og var að stríða við meiðsli í mánuð eftir tognun og í samspili við veðrið undanfarið hafði ég ekki átt draumaundirbúningstímabil en ég fór samt út, meira til að hafa það bak við eyrað að sjá hvar ég væri stödd. Ég er núna svolítið frá stelpunum sem eru bestar í mínum flokki en ég veit að ég á helling inni svo að ég er bjartsýn á að komast á Ólympíuleikana 2020. Í haust mun ég taka tveggja tíma æfingu fyrir skólann og svo aftur eftir skólann og kannski eiga frí á sunnudögum, en ég er að byrja í íþróttafræði í Háskólanum í Reykjavík.“

Nú eru 12 ár liðin frá slysinu og auk þess sem Arna hefur vakið athygli fyrir sinn líkamlega og andlega styrk, hefur hún verið valin framúrskarandi Íslendingur og fleira til, hún er virk í SEM, Samtökum endurhæfðra mænuskaddaðra, og hefur verið ötul í að miðla reynslu sinni með fyrirlestrum víða. Arna er ekki aðeins fyrsti Íslendingurinn til að keppa á hjólareiðamótum hreyfihamlaðra, heldur er hún líka fyrsti Íslendingurinn til að keppa á heimsmeistaramóti almennt í hjólreiðum.

„Það tekur tíma, þolinmæði og þrjósku að verða sjálfstæður og upp á sjálfan sig kominn til að geta framkvæmt það sem maður vill gera. Mér finnst ég alltaf verða betri og betri í því og næ þannig að njóta lífsins betur. Þetta snýst fyrst og fremst um hugarfarið. Íþróttirnar hafa hjálpað mér mikið, að geta farið út að hjóla, fá útrás og upplifa það að vera uppgefin.
Mér finnst ég líka hafa fengið að upplifa það sem aðrir hafa ekki fengið og af erfiðum áskorunum og ýmsu sem ég hef lent í held ég að ég hafi lært fullt. Það sem ég upplifi svo sterkt í dag er að mér finnst ég bara vera svolítið heppin. Ég get notað hendurnar en margir sem fá mænuskaða eru miklu verr staddir, kljást við alls konar veikindi og sjúkdóma. Einu sinni gat ég ekki sest upp í rúminu og ég hélt að ég myndi aldrei geta lært það. Að hugsa um litlu sigrana hjálpar.“

Stigasöfnunin aukaáskorun

Í haust taka við stífar æfingar og eru þegar byrjaðar en til lengri tíma litið sér Arna fyrir sér að aðstoða fólk með aðrar fatlanir að finna íþróttir sem því henta.

„Ég veit hvað íþróttirnar hafa gert mikið fyrir mig og erlendis eru íþróttir mun meira tengdar inn í endurhæfingu fólks sem lendir í slysum. Ég væri til í að sjá íþróttafræðinga koma strax að endurhæfingunni sem gæti þá hjálpað fólki að finna íþrótt við hæfi. Ég sjálf gæti verið á óteljandi lyfjum, ég er með lágan blóðþrýsting vegna mænuskaðans og alls konar verki, en vegna íþróttarinnar sem ég er að æfa þarf ég þess ekki og ég væri svo til í að hjálpa fleiri til að komast að því hvort íþróttir geta gert það sama fyrir þá.“

Arna segir það ótrúlega gott og hvetjandi að hafa sett sér það markmið að komast á Ólympíuleikana 2020.

„Ég þarf núna að safna stigum alveg þar til mótið er, keppa á mörgum mótum en flækjustigið er svolítið því hjólreiðar hreyfihamlaðra eru ekki undir íþróttasambandi fatlaðra heldur Hjólreiðasambandi Íslands. Þar sem ég er ein í þessu safna ég stigum ein meðan stelpurnar í hinum löndunum geta safnað stigum saman sem hópur svo það er aukaáskorun þar sem það er erfiðara fyrir mig að ná stigum. Fram undan eru æfingar, styrktar- og þol, alls konar tækniatriði, teygjur, nudd og svo þarf ég að borða vel og sofa mikið til að geta æft stíft. Hjólreiðarnar eru mitt jóga og ég veit að það væru margir til í að vera í mínum sporum, geta verið á fínu hjóli að keppa í greininni.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Létta lundin þín mun afla þér stuðnings og samvinnu á vinnustað. Farðu oftar út að ganga.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Kathryn Hughes
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Torill Thorup
5
Jenny Colgan
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Létta lundin þín mun afla þér stuðnings og samvinnu á vinnustað. Farðu oftar út að ganga.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Kathryn Hughes
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Torill Thorup
5
Jenny Colgan