Viðurkenningin kom á óvart

Ísold Uggadóttir ásamt Michael Moore á Traverse City-kvikmyndahátíðinni í Michigan …
Ísold Uggadóttir ásamt Michael Moore á Traverse City-kvikmyndahátíðinni í Michigan í Bandaríkjunum. Moore er frá Michigan. Ljósmynd/Aðsend

Kvikmyndin Andið eðlilega í leikstjórn Ísoldar Uggadóttur hlaut nýverið Roger Ebert-verðlaunin fyrir bestu frumraun leikstjóra á Traverse City-kvikmyndahátíðinni, sem haldin er í Michigan í Bandaríkjunum. Hlaut Andið eðlilega, eða And Breathe Normally eins og hún nefnist á ensku, verðlaunin í flokki leikinna kvikmynda.

Verðlaunin eru kennd við hinn virta kvikmyndagagnrýnanda Roger Ebert. Stofnandi kvikmyndahátíðarinnar Traverse City er bandaríski kvikmyndagerðarmaðurinn og aðgerðasinninn Michael Moore. Í upphafi ársins hlaut Ísold verðlaun á kvikmyndahátíðinni Sundance í Park City í Utah. Ísold var þá valin besti leikstjórinn af þeim sem eiga kvikmynd í alþjóðlegum flokki, þ.e. flokki kvikmynda frá öðrum löndum en Bandaríkjunum.

Hrífandi og falleg hátíð

Ísold Uggadóttir, leikstjóri kvikmyndarinnar Andið eðlilega, segir í samtali við Morgunblaðið að verðlaunin hafi komið henni á óvart. „Það kom mér einnig skemmtilega á óvart hvað Michael Moore var mikill þátttakandi á hátíðinni, þ.e.a.s. að hann veitti sjálfur verðlaunin og var í raun allt í öllu,“ segir Ísold.

„Þetta var afar hrífandi og falleg hátíð við Michiganvatn þar sem áhersla er lögð á kvikmyndir sem hafa ríka þýðingu og eru t.d. af pólitískum eða samfélagslegum toga. Þannig að það var einfaldlega mjög gaman að taka þátt,“ segir Ísold um kvikmyndahátíðina.

Auglýsing á kvikmyndahúsi þarf sem kvikmynd Ísoldar Uggadóttur er til …
Auglýsing á kvikmyndahúsi þarf sem kvikmynd Ísoldar Uggadóttur er til sýnis í Michigan. Myndin nefnist Andið eðlilega á íslensku, en And Breathe Normally á ensku.

Stemning hjá íbúum Michigan

Íbúar Traverse City í Michigan, þar sem kvikmyndahátíðin er haldin, eru virkir þátttakendur á hátíðinni að sögn Ísoldar, en íbúafjöldi borgarinnar er um 15 þúsund. „Michael Moore tekst ekki einungis að fá frábærar kvikmyndir og frábæra leikstjóra á staðinn, heldur tekst honum líka að virkja bæjarbúa Traverse City afskaplega vel. Það var mikil stemning í kringum hátíðina og bærinn er eiginlega undirlagður hátíðinni þar sem allir taka þátt,“ segir Ísold. Hátíðin hefur farið fram frá árinu 2005.

Kvikmyndin er enn sýnd hérlendis í Bíó Paradís og í komandi viku verður hún tekin til almennra sýninga í bíóhúsum um alla Svíþjóð. Auk þess er hún sýnd á kvikmyndahátíðum víðsvegar um heiminn, t.d. í Ástralíu, Póllandi og Ísrael. „Þær Kristín Þóra Haraldsdóttir og Babetida Sadjo, aðalleikkonur myndarinnar, mættu fyrir okkar hönd til Slóvakíu fyrr í sumar, svo fór ég þegar myndin var sýnd á Karlovy Vary-kvikmyndahátíðinni í Tékklandi,“ segir Ísold.

Er á leið til Færeyja

Í komandi viku fer Ísold til Svíþjóðar vegna frumsýningar á Andið eðlilega þar í landi og þá liggur leiðin einnig til Haugesund í Noregi á alþjóðlega kvikmyndahátíð seinna í mánuðinum. Einna spenntust segist Ísold vera fyrir kvikmyndahátíð í Færeyjum, en þangað hefur hún ekki komið áður, næstu mánaðamót þar sem Andið eðlilega verður sýnd.

Ferðalag til Íraks í október

„Áhugaverðasta boð á kvikmyndahátíð, sem hefur komið, hingað til allavega, er boð til Íraks, nánar tiltekið til sjálfstjórnarhéraðs Kúrda, í október. Það verður saga að segja frá því,“ segir Ísold um væntanlegt ferðalag kvikmyndarinnar. Um er að ræða alþjóðlega kvikmyndahátíð í borginni Duhok í sjálfstjórnarhéraði Kúrda, sem er í norðurhluta Íraks.

Og stefnir þú þangað?

„Já, ég kunni ekki við annað en að þiggja boðið, enda sennilega eina skiptið sem ég mun eiga erindi á þær slóðir. Þannig að ég verð stödd í Kúrdistan seinni hluta október,“ segir Ísold Uggadóttir að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Létta lundin þín mun afla þér stuðnings og samvinnu á vinnustað. Farðu oftar út að ganga.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Kathryn Hughes
3
Torill Thorup
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Steindór Ívarsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Létta lundin þín mun afla þér stuðnings og samvinnu á vinnustað. Farðu oftar út að ganga.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Kathryn Hughes
3
Torill Thorup
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Steindór Ívarsson