Jökull Júlíusson söngvari hljómsveitarinnar Kaleo er andlit nýrrar herferðar hjálparsamtakanna World Wild Life. Herferðin var sett af stað í síðustu viku þar sem þau halda áfram baráttu sinni fyrir varðveislu á viltu lífríki náttúrunnar. Lag Kaleo „Can't go on without you“ er notað í þremur nýjum myndböndum sem WWF setti í loftið sem hluti af herferðinni.
Jökull segist vera stoltur af því að vinna með hjálparsamtökunum og að verkefni þeirra séu honum hjartfólgin. Á vef World Wild Life segir Jökull að uppáhalds dýrið sitt sé ísbjörn.
„Með því að alast upp á Íslandi sem státar af einu stærsta ósnortna náttúrusvæði Evrópu trúi ég á varðveislu náttúrunnar og fegurð hennar. Umræða um þessi mál er nauðsynlegur partur af varðveislu jarðarinnar og eiga skilið stuðning frá öllum heimshornum,“ segir Jökull.
WWF hefur í 50 ár verið í fararbroddi umhverfissinna með starfsemi í yfir 100 löndum og leggja um 5 milljónir manna samtökunum lið um allan heim.