„Þið verðið, hreinlega verðið að kaupa hana núna. Samstundis. Fallegustu, ástríðufyllstu og beinskeyttustu lagasmíðar og óvenjulegasti flutningur sem ég hef heyrt í langan tíma. Hún heitir Funeral og ekkert sem ég hef heyrt (já ég er búinn að heyra nýju U2 plötuna) kemst nálægt þessu. (Kannski Secret Machines með Now Here Is Nowhere).“
Erfitt er að ímynda sér betri byrjun á ferlinum en að fá svona blessun frá sjálfum granna hvíta hertoganum, David Bowie. Skilaboðin skrifaði hann um óþekkta kanadíska hljómsveit, Arcade Fire, á spjallborð þar sem aðdáendur hans ræddu málin árið 2004. Bowie sást á tónleikum sveitarinnar í upphafi ferilsins í New York og átti eftir að koma fram og skapa tónlist með sveitinni síðar meir.
Hvort þetta hafi haft afgerandi áhrif er óvíst en eitt er víst að bransinn hlustaði þegar Bowie tjáði sig. Mögulega var það tilviljun en þaulreyndur umboðsmaður og upptökustjóri (Radiohead, Supergrass og Slowdive) rétti mér tvo brennda geisladiska haustið 2004 til að hlusta á, það voru Arcade Fire og Secret Machines sem Bowie hafði mært.
Hversu vel sem einhver kann að skrifa um hljómsveit er það þó alltaf undir henni sjálfri komið að vinna fólk á sitt band og strax í upphafi var ljóst að Arcade Fire gerði það. Sjálfur náði ég aldrei sterkri tengingu við Funeral en man vel hvernig fólk talaði um tónleikaupplifunina og þeim fjölgaði hratt sem voru strangtrúaðir Arcade Fire-aðdáendur. Þið vitið, týpan sem ætlar að láta þig skilja að sveitin er eiginlega það besta sem hefur gerst frá því að Bítlarnir byrjuðu að hrista toppana sína.
Sveitin skar sig strax frá Strokes-skotnu rokki sem tröllreið öllu á þessum tíma. Fjölmennari og með fjölbreyttari hljóðfæraskipan og þar af leiðandi víðari hljóm en megnið af gítar-rokkinu. Þá var það frekar fersk nýbreytni að sjá bæði kynin á sviðinu þar sem stemningin var eins og á eldhressri trúarsamkomu þar sem fólk skiptist á hlutverkum og hljóðfærum. Tónleikar hjá Arcade Fire hafa alla tíð haft orð á sér fyrir að fara langt fram úr því að vera venjuleg tónleikaupplifun. Ég hef átt nokkur samtöl þar sem fólk er að reyna að lýsa þessu fyrir mér en skortir eiginlega orðin. Vonandi verður þetta þannig í Laugardalnum.
Lagið „Wake up“ náði miklum vinsældum og stimplaði Arcade Fire rækilega inn sem eina af þessum tiltölulega fáu útvöldu hljómsveitum sem geta bæði samið vinsæl lög og haft listræna vigt. Hægt er að hlusta á frábæra greiningu á laginu í eldhressu hlaðvarpi hjá strákunum í Fílalag. Funeral seldist vel og líklega hafa fáar frumraunir fengið aðrar eins viðtökur gagnrýnenda en hún er iðulega ofarlega á listum yfir bestu plötur aldarinnar, eða jafnvel allra tíma.
Þegar kom að því að gera plötu númer tvö hristi sveitin Neon Bible fram úr erminni árið 2007. Á henni er fágaðri og stærri hljómur. Win Butler, hinn hávaxni lagasmiður og söngvari sveitarinnar, hafði sjálfstraust til að semja lög sem tækluðu stór og erfið málefni í bandarísku samfélagi. Hljómsveitin er kanadísk en Butler ólst að mestu upp í Bandaríkjunum. Lögin bera titla á borð við „(Antichrist Television Blues)“ og „Black Mirror“. Sjónvarpsmenning, trú, frægð og efasemdir um stefnu vestrænnar menningar eru þemu á plötunni.
„I don’t wanna fight in a holy war, I don’t want the salesman knocking on my door. I don’t want to live in America no more. Because the tide is high and it’s rising still and I don’t want to see it at my windowsill“.
Þetta syngur Butler í laginu „Windowsill“, Kanadamenn sem höfða til samvisku Bandaríkjamanna í gegnum tónlist og textaskrif er náttúrulega margsönnuð sigurformúla. Neil Young, Leonard Cohen, Joni Mitchell og nú Arcade Fire.
Alvarlegir textar og alvarleg tónlist í þessum gæðaflokki mun alltaf kalla fram viðbrögð. Einhverjir settu það fyrir sig en Neon Bible skilaði sér yfirleitt í toppsæti árslistanna sem voru svo vinsælir á þessum tíma. Ein helsta arfleifðin er þó líklega hið einkennandi Hey-hróp í „No Cars Go“ sem fjölmargar hljómsveitir gripu á lofti og endurnýttu á næstu árum.
Á The Suburbs sem kom út árið 2010 er úthverfa-raunveruleiki í N-Ameríku skoðaður og enn er eins og Butler og félagar hafi einhverja beintengingu í vitund sinnar kynslóðar. Viðtökurnar voru frábærar enda er platan metnaðarfull og telur ein átján lög. Sami stóri hljómurinn er einkennandi en á plötunni eru líka lög sem eru vísir að því sem myndi seinna koma, ryþmískari og elektrónískari áherslur. Sérstaklega hljómaði hið dansvæna, „Sprawl II (Mountains Beyond Mountains)“ sem Regine syngur, ferskt innan Arcade Fire-hljóðheimsins.
Tónlistarpressan hélt ekki vatni og fékk The Suburbs einróma lof eins og fyrri verk.
Í upptaktinum að útgáfu Reflektor sem kom út árið 2013 var tilkynnt um að James Murphy yrði sveitinni innan handar í ferlinu. Murphy er náttúrulega maðurinn á bak við LCD-Soundsystem og veit eitt og annað um hvernig á að smita fólk með takti og uppbyggingu. Sambandið við Bowie var rifjað upp í titillaginu sem er eitt af mínum uppáhalds með sveitinni. Keyrt áfram af þungum diskótakti, conga-trommum og leysist upp brjálæðislegum hápunkti. Magnað lag og sýndi fram á hvernig hljómsveitin hefur náð að þróa hljóm sinn án þess að segja skilið við rætur sínar. Undirtónninn í tónlist Arcade Fire er yfirleitt þungur og Butler lét hafa eftir sér að danski nítjándualdarheimspekingurinn Søren Kierkegaard hefði verið stór hugmyndafræðilegur áhrifavaldur með pælingum sínum um fjölmiðla og firringu.
Sem fyrr voru viðtökurnar frábærar og almennt var platan álitin ein sú besta á árinu og nú var kominn áratugur þar sem Arcade Fire hafði ekki stigið eitt feilspor. Eitthvað sem er frekar óalgengt. Eitthvað virðist í uppbyggingu, samsetningu og vinnulagi hjá sexmenningunum sem viðheldur einbeitingu og vilja til að halda áfram að gera tónlist sem skiptir máli.
Í fyrra var svo komið að Everything Now sem sveitin fylgir nú eftir á tónleikaferðalagi og nú er loksins komið að tónleikum á Íslandi. Platan var sú fyrsta sem missti að einhverju leyti marks hjá gagnrýnendum. Hvort það sé sykursætur Abba-keimurinn af titillaginu (fyrsta lag sveitarinnar til að ná toppi Billboard-listans) sem hafi gert einhverja afhuga sveitinni eða misheppnuð markaðsherferð á samfélagsmiðlum er erfitt að segja til um en þetta er alla vega í fyrsta skipti sem viðtökurnar hafa verið blendnar.
Í þetta skiptið voru ekki ómerkari menn en Thomas Bangalter (Daft Punk) og Geoff Barrow (Portishead) á tökkunum ásamt samstarfsfólki sveitarinnar til margra ára. Helsta gagnrýnin sem hefur verið sett fram var stefnuleysi. Það vantar þó engan veginn frábær lög á plötuna og það er ljóst að svitinn á eftir að leka úr loftinu á Nýju-Laugardalshöllinni þar sem sveitin kemur fram. „Signs of Life“, „Creature Comfort“ og „Good God Damn“ eru til að mynda mjög vel heppnuð og þessi brjálæðislegi dansfílíngur sem sveitin hefur sótt meir og meir í átt að skilar sér augljóslega frábærlega í lifandi flutningi eins og upptökur af tónleikum þeirra sýna vel.