Erlendir fjölmiðlar á borð við BBC og CNN hafa fjallað um lát Stefáns Karls Stefánssonar leikara, eftir að Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, eiginkona Stefáns Karls, greindi í gær frá því á Facebook-síðu sinni að hann væri látinn eftir tveggja ára baráttu við illvígt gallgangakrabbamein.
BBC segir Stefán Karl hafa verið hvað þekktastan fyrir hlutverk sitt í Latabæ og rifjar, líkt og fleiri fjölmiðlar hafa gert, upp er leikarinn greindi frá því á Twitter að krabbinn hefði snúið aftur.
„Það er ekki fyrr en að manni að sagt að maður muni deyja fljótlega, sem að maður áttar sig á því hve stutt lífið er,“ skrifaði leikarinn. „Tíminn er það dýrmætasta í lífinu af því hann kemur aldrei aftur. Hvort sem að maður eyðir tímanum í örmum ástvina eða einn í fangaklefa, þá er lífið það sem að maður gerir úr því. Leyfið ykkur að dreyma stóra drauma.“
Meðal þeirra fjölmiðla sem einnig hafa rifjað upp færsluna er CNN sem rifjar sömuleiðis upp orð Stefáns Karls um Latabæ á Reddit í fyrra. „Að skemmta og fá krakka til að hlæja er uppáhaldið mitt,“ sagði Stefán Karl þá. Bresku blöðin Daily Mail, Mirror, Metro, skoska dagblaðið Daily Record, 8KPAX, WQAD og hið mexíkóska El Universal hafa einnig greint frá láti hans.
Aðdáendur leikarans, sem margir hverjir uxu úr grasi með Latabæ, hafa þá minnst Stefáns Karls og sent fjölskyldu hans hugheilar kveðjur.
„Ég vonaði að þú myndir lifa að eilífu og á vissan hátt muntu gera það. Hvíl í friði,“ skrifar einn á Twitter. Annar minnist styrksins sem Stefán Karl sýndi í baráttunni við sjúkdóm sinn. „Þú varst hetja æsku minnar og þú varst einn fárra einstaklinga sem veittir mér innblástur til að verða leikari. Óska þér kærleiks og hamingju að eilífu. Takk fyrir allt,“ skrifar sá þriðji.
Þá hefur svokallaðri net-„meme“-mynd verið dreift af aðdáendum leikarans á samfélagsmiðlum, en myndin sýnir Stefán Karl í hlutverki Glanna glæps sem mann ársins á forsíðu Time-tímaritsins.