Þjóðleikhúsið iðar af lífi þegar blaðamann ber að garði. Hljóðfæraleikarar eru að bera inn hljóðfæri, leikarar að æfa á sviði, saumavélar suða í búningadeildinni og hamarshögg frá leikmyndasmiðum bergmála um gangana. Starfsfólk hússins er komið úr sumarfríi og nýtt leikár að hefjast en langur listinn yfir verkefnin framundan sýnir að á þriðja tug sýninga verða færðar á svið Þjóðleikhússins í vetur.
Ari Matthíasson þjóðleikhússtjóri segir að alltaf sé gaman þegar undirbúningur fyrir leikárið er kominn á fullt. „Þegar búið er að hnoða saman verkefnum fyrir nýtt leikár þá er vissulega alltaf í manni einhver efi, um hvernig takist til. Svo mæta allir þessir frábæru listamenn hingað í ágúst, húsið fyllist af orku og gleði og ég fyllist vissu um að þetta verði frábært. Ef ég þarf að takast á við eitthvert pex og argaþras hér í vélarrúminu,“ segir hann um skrifstofu sína, „þá fer ég bara og fylgist með æfingu um stund og allt verður gott að nýju.“
Þegar rætt er um nýtt leikár og öll þau spennandi og ólíku verk sem valið hefur verið að sýna, þá bendir Ari fyrst á að þegar þjóðleikhús eigi í hlut þá verði að hafa margt í huga. Menningarstefna sett af mennta- og menningarmálaráðuneytinu setur starfseminni ramma, rétt eins og fjárlög íslenska ríkisins. Meðal þeirra skyldna sem leikhúsinu ber að þjóna er að sinna börnum – um þriðjungur uppfærslnanna er sérstaklega ætlaður þeim – og þá er mikilvægt að sinna íslenskri leikritun. Reynt er að hafa allt að helming verkanna íslensk.
„Þá þurfum við eðlilega að gæta að jöfnum tækifærum fyrir karla og konur í hópi listrænna stjórnenda og að samsetning leikársins höfði til hinna ýmsu og ólíku hópa áhorfenda. Allir þessir kraftar eru að verki þegar leikárið er mótað. Við þurfum líka bæði að sýna ný verk og klassísk, erlend sem innlend. Við reynum að halda þessum boltum á lofti og gæta að jafnvæginu, um leið og við erum í virku samtali við samfélagið,“ segir Ari.
Að jafnaði vinna margir höfundar að skrifum fyrir Þjóðleikhúsið. Ari segir að höfundar séu ráðnir til að vinna að eigin leikritum eða leikgerðum eftir eigin sögum eða annarra. „Hugmyndir að leikgerðum geta kviknað með ýmsum hætti, höfundar eða leikstjórar koma til okkar með verk sem þeir brenna fyrir að takast á við, eða þá að leikhúsið hefur frumkvæði að því að leikgerð er unnin, til dæmis með það fyrir augum að takast á við ákveðin brýn umfjöllunarefni, eða einfaldlega búa til spennandi leiksýningu. Okkur finnst mikilvægt að leitast við að jafna kynjahalla í leikbókmenntum, og á síðasta leikári sviðsettum við til dæmis leikgerð sem var byggð á Svartalogni eftir Kristínu Marju Baldursdóttur, þar sem er mikið af bitastæðum hlutverkum fyrir konur, og fjallað er á áhugaverðan hátt um veruleika kvenna.“
Ari talar áfram um samstarf hússins við leikskáldin og segir eðlilegt að stofnun eins og Þjóðleikhúsið taki ákveðna áhættu þegar gerðir séu samningar við höfunda. Oft gengur það vel upp og verður að leikverki sem endar á fjölunum. „Það líða gjarnan 18 til 20 mánuðir frá því að ég sest niður með höfundi að ræða hugmynd og við skrifum undir áfangasamning um tiltekið leikverk, þangað til tjaldið er dregið frá sviðinu á frumsýningarkvöldi. Svo getur það líka gerst að ekki næst að ljúka verki fyrir tilætlað leikár. En við höfum skyldur gagnvart íslenskri leikritun og erum sífellt með það í huga,“ segir Ari en auk nýrra verka í samstarfsverkefnum með leikhópum sem koma inn í húsið, þá verða tvö ný leikverk frumsýnd, Súper – þar sem kjöt snýst um fólk, eftir Jón Gnarr, og Þitt eigið leikrit – Goðsaga eftir Ævar Þór Benediktsson.
Auk Svartalogns, sem verður tekið aftur upp í seinni hluta september, er haldið áfram að sýna sirkussöngleikinn Slá í gegn, með tónlist eftir Stuðmenn, og eru sýningar hafnar. Þá hefjast í byrjun september sýningar á Sögustund eftir Bernd Ogrodnik og í október sýnir hann á Brúðuloftinu Klókur ertu, Einar Áskell, en hún er byggð á bókum eftir Gunillu Bergström. Þjóðleikhúsið býður börnum í elstu deildum leikskóla í heimsókn með kennurum að sjá Sögustund til að kynnast töfraheimi leikhússins. Bernd sýnir börnunum sjö leikþætti með handunnum trébrúðum sínum og heillandi töfrabrögðum.
„Við sýnum Sögustund líka hátt í fimmtíu sinnum á landsbyggðinni í vetur og reynum þannig að bjóða öllum börnum á þeim aldri að sjá sýninguna“ segir Ari. „En við ætlum líka að fara með hana á elliheimili og sýna hana elstu borgurunum.
Undanfarin ár hefur Þjóðleikhúsið verið duglegt að bjóða börnum í leikhús og við höfum líka lagt aukna áherslu á að fara með sýningar út á land enda höfum við skyldum að gegna gagnvart landsmönnum. Það er mikilvægt að leikhúsið sé aðgengilegt, óháð búsetu og efnahag. Við Íslendingar eigum Þjóðleikhúsið saman og leggjum því til fjármuni, því verður stofnunin að mæta landsmönnum eins og hægt er – og ekki síst börnum.
Í fyrra frumsýndum við barnaleikrit á Ísafirði og í Vestmannaeyjum árið áður. Þótt við séum með þetta margar sýningar fyrir börn á landsbyggðinni í ár þá finnst mér við líka þurfa að ferðast um með verk fyrir fullorðna og munum reyna að gera það,“ segir hann.
Fyrsta frumsýningin á stóra sviðinu í haust er Ronja ræningjadóttir eftir Astrid Lindgren, við tónlist eftir Sebastian og í leikstjórn Selmu Björnsdóttur. „Það verður risastór sýning, 30 manns á sviðinu og öllu tjaldað til!“ segir Ari. „Selma er frábær leikstjóri og hefur sett upp margar af okkar stærstu sýningum undanfarin ár. Við erum með stórstjörnu í aðalhlutverkinu, Sölku Sól, sem er söngkona af hæsta kaliberi og snjöll leikkona. Á móti henni leikur annar glæsilegur leikari, Sigurður Þór Óskarsson. Þetta er falleg saga sem margir þekkja og fjallar meðal annars um það hvernig vináttan dregur úr tortryggni milli stríðandi fylkinga. Þetta er okkar stærsta sýning í vetur.“
Þetta verður í þriðja skipti sem Ronja ræningjadóttir er færð á svið hér á landi en danska söngvaskáldið vinsæla, Sebastian, sem ekki hefur áður komið til landsins verður viðstaddur frumsýninguna.
Undir lok september verður Fly Me to the Moon eftir Marie Jones frumsýnt í Kassanum. Höfundurinn leikstýrir sjálfur og leikarar eru þær Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Anna Svava Knútsdóttir. Þetta er hjartnæmt verk um tvær konur sem hafa alltaf þurft að hafa fyrir lífinu en standa skyndilega frammi fyrir þeim möguleika að eignast peninga með auðveldum hætti.
„Jones skrifaði líka Með fulla vasa af grjóti. Hún kom hingað þegar við sýndum verkið fyrir ári síðan, þegar Stefán Karl vinur okkar reis af sjúkrabeði til að leika tíu sýningar með Hilmi Snæ,“ segir Ari. „Við vorum búin að vera með þetta verk hér hjá okkur til skoðunar, Ólafía Hrönn og Steinunn Ólína ætluðu að leika, og Jones leist vel á hugmyndina að leikstýra því sjálf hér. Við hófum æfingar í vor en vegna veikinda Stefáns Karls steig Steinunn Ólína til hliðar og við fengum Önnu Svövu í leikinn. Hún er fyndin og skemmtileg og það er mikill fengur að fá hana til að leika hjá okkur.“
Seint í október verður nýtt og kröftugt leikrit eftir Nina Raine, Samþykki (Consent) frumsýnt á stóra sviðinu í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur. Verkið var frumsýnt fyrir rúmu ári í National Theatre í London, þar sem það sló í gegn, og var í kjölfarið fært á West End. Ari segir þetta frábært leikrit um flókin samskipti og um réttarkerfið þar sem spurt er hver sé munurinn á hefndarþorsta og leit að réttlæti og hvort allir séu jafnir fyrir lögunum.
„Í leikhópnum eru margir af okkar snjöllustu leikurum í þessum aldurshópi og sá mikli snillingur Kristín leikstýrir þessari sýningu en verkið þykir eitt það besta sem er á fjölunum í London,“ segir Ari.
Grímuverðlaunasýningin Leitin að jólunum eftir Þorvald Þorsteinsson, með tónlist eftir Árna Egilsson, verður tekin upp að nýju á aðventunni en hún hefur verið sýnd við miklar vinsældir á þeim tíma árs.
Annan í jólum verður Einræðisherrann eftir Charlie Chaplin síðan frumsýndur, í leikgerð hins danska Nikolaj Cederholm sem jafnframt leikstýrir. Leikgerð hans sló í gegn hjá Nörrebro-leikhúsinu í Kaupmannahöfn og var ausin lofi. Sigurður Sigurjónsson leikur flækinginn sem verður einræðisherra fyrir röð tilviljana og er þetta heillandi og frumleg sýning um valdasýki og möguleika mennsku í trylltri veröld og baráttuna fyrir friði.
Ari segir að Cederholm hafi verið spenntur fyrir því að koma og leikstýra hér. „Þessi sýning á sérkennilega vel við í dag, nú þegar ýmis teikn eru á lofti um uppgang fasískrar hugsunar, hvort sem litið er til Bandaríkjanna, Mið-Evrópu eða jafnvel Norðurlanda. Samt er svo ótrúlega skammt síðan heimurinn gekk gegnum hörmungar vegna slíkra hugmynda,“ segir Ari. „Það er merkilegt að Chaplin skuli hafa gert þessa kvikmynd, Einræðisherrann, árið 1939, en í henni er svo mikil tilfinning fyrir því sem átti eftir að gerast. Þetta er satíra en gríðarlega falleg saga. Og mikið leikhús, heldur betur, og gleðilegt að fá að sjá Sigga Sigurjóns leika Chaplin, þann listamann sem Siggi hefur dáð mest af öllum. Ilmur Kristjánsdóttir er í öðru aðalhlutverki og margir aðrir frábærir leikarar taka þátt. Leikgerðin er ótrúlega skemmtileg og ég hlakka mikið til.“
Þitt eigið leikrit – Goðsaga eftir Ævar Þór Benediktsson verður frumsýnt í Kúlunni seint í janúar, í leikstjórn Stefáns Halls Stefánssonar. Bókaröð Ævars Þórs „Þín eigin saga...“ hefur notið mikilla vinsælda en þar geta lesendur ráðið miklu um það hvernig sagan þróast. Eins verður það í leiksýningunni þar sem áhorfendur fá að kjósa hvaða stefnu leikurinn tekur.
Ari segir þá Ævar Þór og Stefán Hall hafa komið til sín og sagst hafa áhuga á að gera þá spennandi tilraun, að heimfæra aðferð Ævars í sögunum upp á leiksviðið. „Og það er frábær hugmynd,“ segir hann. „Við leggjum Kúluna undir verkið og gjörbreytum henni, meðal annars með því að nota nýja vídeótækni sem hefur ekki verið reynd hér á landi áður, en verðum samtímis með alveg hefðbundið frásagnarleikhús. En það verða rafrænar kosningar í sýningunni og engar tvær því eins.“
Í febrúar verður fyrra klassíska leikritið á leikárinu frumsýnt, Jónsmessunæturdraumur, einn vinsælasti gamanleikur Williams Shakespeare í leikstjórn Hilmars Jónssonar. „Nú heitir verkið ekki Draumur á Jónsmessunótt heldur Jónsmessunæturdraumur, í nýrri þýðingu Þórarins Eldjárns. Við erum lánsamari en Englendingarnir sem sitja alltaf uppi með gömlu gerðina af leiktextanum,“ segir Ari og brosir kankvíslega. Við höfum látið þýða nokkur klassísk verk fyrir okkur upp á nýtt á síðustu árum en með nýrri þýðingu færist verkið nær áhorfendum í samtímanum.
Ég hef sagt í hálfkæringi að það sé lán okkar hér hvað illa sé búið að íslenskum höfundum, að við getum ráðið þá til að þýða fyrir okkur. Þórarinn leggur sinn húmor og lífssýn í þýðinguna. Hann er líka að þýða Hamlet fyrir okkur og það sem ég hef séð er frábærlega gert.
Hilmar Jónsson hefur ekki leikstýrt hjá okkur í nokkur ár en hefur verið að gera það gott í Svíþjóð. Hann hefur mjög skemmtilegar hugmyndir um sviðsetninguna en við færum verkið í nútímann. Þess má geta að Eva Signý Berger gerir leikmyndina og Karen Briem búningana; hún er nýliði hér en gerði frábæra búninga fyrir uppsetningu Þorleifs Arnar Arnarssonar á Eddu í Hannover. Í verkinu leika nokkrir af okkar allra yngstu útskrifuðum leikurum, ásamt öðrum margreyndum. Þetta er fallegt og skemmtilegt leikrit, mikið ævintýri.“
Snemma í apríl verður nýtt leikrit Jóns Gnarr, Súper – þar sem kjöt snýst um fólk síðan frumsýnt. Það er sagt bráðfyndið og fullt af „gnarrískum“ húmor og pælingum. Í verkinu hittist fólk í stórmarkaði og á í einlægum samræðum – eða er það að tala við sjálft sig? Benedikt Erlingsson leikstýrir.
„Hann er í miklu og góðu stuði, hann Benni,“ segir Ari og það er svo sannarlega rétt, kvikmynd hans Kona fer í stríð hefur hlotið verðskuldað lof. „Hann er hlýr og góður leikstjóri og ég hef mikla trú á samstarfi þeirra Jóns Gnarr.
Ég hef lengi átt þann draum að sviðsetja Sköllóttu söngkonuna eftir Ionesco en það er bara klukkutíma langt verk og mig vantar annað að sýna á móti því. Jón var hér og ég fór að ræða hvort hann væri til í skrifa slíkt verk og hann var með hugmynd sem við lögðum upp með. En það stækkaði, karakterunum fjölgaði og þegar stefndi í sýningu í fullri lengd þá var Sköllóttu söngkonunni ýtt út.“ Hann brosir.
„Þetta leikrit er algjörlega í anda Jóns Gnarr. Það er nokkuð súrt og fjallar jafnt um þjóðernisrembing sem ástina og lífið – og það er mjög skemmtilegt.
Þar á eftir sýnum við svo aðra klassík, Loddarann eftir Molière,
mjög skemmtilegt leikrit sem er reglulega sett upp víða um lönd og er um hræsnarann Tartuffe sem fer alla leið og fokkar öllu upp!“
Öll almennileg þjóðleikhús verða reglulega að sýna verk eftir Molière og það er gaman að geta sýnt verk eftir þá Shakespeare á sama leikárinu. Til að leikstýra því kemur Stefan Metz sem hefur sett upp nokkrar sýningar hjá okkur. Hann hefur undanfarið leikstýrt á Dramaten og Stadsteater í Stokkhólmi, á Spáni og í Þýskalandi. Hann er frábær leikara-leikstjóri, bæði kröfuharður og nákvæmur. Leikarahópurinn er líka frábær, með Hilmi Snæ fremstan sem Tartuffe.
Við verðum með glænýja þýðingu eftir Hallgrím Helgason. Karl Guðmundsson þýddi leikritið á sínum tíma í bundnu máli og svo þýddi Pétur Gunnarsson leikgerð sem var ekki í bundnu máli og var sýnd í Borgarleikhúsinu fyrir um 25 árum – ég lék einmitt í henni. En Hallgrímur fer eftir bragarhætti Molière og það er mjög spennandi enda er Hallgrímur mikill orðsins maður.“
Auk fyrrnefndra sýninga Þjóðleikhússins verða nokkur forvitnileg samstarfsverkefni með ýmsum leikhópum færð á svið hússins. Athygli vekur að hópurinn Leikhúslistakonur 50+ hefur flutt sig frá Iðnó í Þjóðleikhúskjallarann og setur í leikstjórn Maríu Sigurðardóttur í nóvember upp sýninguna Fjallkonan fríð – eða hefur hún hátt? Ari fagnar því að þær séu komnar í húsið og vonar að þær finni þar bæði skjól og stuðning. „Þetta eru snjallar og þroskaðar listakonur sem styrkja ásýnd stofnunarinnar og geta leiðbeint okkur hinum með fallegum hætti,“ segir Ari og bætir við að varðandi samstarfssamninga þá hafi hann ekki stundað að leita til þeirra hópa sem fái hæstu styrkina hjá Leiklistarráði, vegna þess að þeir séu vel fjármagnaðir. „Ef við göngum til samstarfs þá styðjum við hópana eftir megni. Leikhúslistakonur 50+ verða með tvær sýningar í kjallaranum í vetur og ég hlakka til að sjá þær.
Áður, eða í október, setur Pálína Jónsdóttir í samstarfi við Leikhópinn Leiktóna upp í Kúlunni sýninguna Ég heiti Guðrún. Þetta er frábært leikrit, sorglegur gamanleikur um vináttu fjögurra kvenna en ein greinist með Alzheimer. Sigrún Waage leikur aðalhlutverkið.“
Insomnia eftir Amalie Olesen verður sett upp í Kassanum í nóvember, í samstarfi við Stertabendu og í leikstjórn Grétu Kristínar Ómarsdóttur. Í verkinu eru skoðuð áhrifin sem gamanþættirnir Friends hafa haft á sjálfsmynd kynslóða, í sýningu sem er sögð bæði beitt og fyndin. Ari segir Grétu Kristínu vera einn allra efnilegasta unga leikstjórann og kröftugur leikhópurinn muni leyfa sér að fara út á ystu mörk í satírunni.
Sviðslistahópurinn Marble Crowd flytur dansverkið Moving Mountains á sviðslistahátíð í nóvember en verkið var frumflutt í Hamborg í fyrra og tilnefnt til verðlauna í Þýskalandi.
Velkomin heim! eftir Maríu Thelmu Smáradóttir verður frumsýnt í Kassanum í febrúar, í leikstjórn Andreu Vilhjálmsdóttur og í samstarfi við leikhópinn Trigger Warning. Ari segir verkið byggt á einleik sem María Thelma flutti í leiklistarnámi og hefur unnið áfram. „Hann byggist á ævi og sögu móður hennar sem var fátæk og munaðarlaus í Taílandi og veit ekki einu sinni hvaða dag hún fæddist, bara að það hafi verið á monsúntímanum,“ segir Ari. „Nú mun dóttir hennar flytja verkið hér á sviði, fyrsta leikkonan af asískum uppruna sem útskrifast hér úr leiklistardeildinni. Hún er hæfileikarík, lék hjá okkur í vetur og ég vona að hún geri það áfram.“
Ari bætir við að Þjóðleikhúsið eigi að vera fyrir alla Íslendinga, jöfnum höndum bókmenntafræðinga og trésmiði; allir séu velkomnir í húsið. „Í kjallaranum starfa tveir frábærir hópar til, Improv Ísland og Mið-Ísland. Á sýningar þess síðarnefnda komu þúsundir gesta árlega og þar á meðal fólk sem hefur aldrei áður komið í húsið; ég vona að það öðlist áhuga á að koma víðar hér við í húsinu og sjá fleiri sýningar.“
Athygli vekur að þegar litið er til kynjaskiptingar höfunda og leikstjóra verkanna sem fara á svið í vetur þá virðist hún vera hnífjöfn. „Það er eins og best verður á kosið,“ segir Ari. „Stundum hallar aðeins í aðra áttina, eða hina. Samfélagið er byggt til helminga af körlum og konum og það er eðlilegt að við segjum til jafns sögur karla og kvenna og að sjónarmið karla og kvenna ráði jafnt för um listræna útfærslu. Stundum tekst það vel, stundum aðeins verr, og þá er markmiðið að lagfæra það. Þá er líka mikilvægt að gefa bæði tækifæri yngri sem eldri listrænum stjórnendum. Það er markmið mitt að hér í Þjóðleikhúsinu sé breiðfylking ólíkra listrænna stjórnenda. Þetta er mjög stór menningarstofnun, hvernig sem á er litið, og um 300 manns á launaskrá. Fólk sem býr yfir miklu listfengi, í raun brennur fyrir listina, og gerir eins og það getur í að skapa mikilvægar og eftirminnilegar sýningar fyrir gesti okkar,“ segir Ari í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu í gær, þriðjudag.