Kvikmyndirnar sem tilnefndar voru til Lux-verðlaunanna verða sýndar á RIFF í lok mánaðarins en hátíðin verður haldin 27. september til 7. október.
Um er að ræða verðlaun Evrópuþingsins og eru þau að því er fram kemur í tilkynningu ein virtustu kvikmyndaverðlaun Evrópu. Kvikmynd Benedikts Erlingssonar, Kona fer í stríð, er ein þriggja mynda sem keppa um titilinn besta mynd ársins í Evrópu. Hinar tvær verða sýndar á hátíðinni en verðlaunin eru afhent 14. nóvember. Styx heitir önnur þeirra og er þýsk-austurrísk framleiðsla eftir leikstjórann Wolfgang Fischer. Hin myndin nefnist The other side of everything sem er serbnesk-katörsk-frönsk framleiðsla eftir Milu Turajlić.
„Mynd Fischer, Styx, fjallar um Rike, fertuga konu sem er læknir, lifir fyrirmyndarlífi og er eins og táknmynd vestrænnar velgengni, hamingjusöm og árangursrík í starfi. Hún er vel menntuð, sjálfsörugg og einbeitt. Við kynnumst Rike í daglegu lífi sínu sem læknir á bráðavakt áður en við fylgjumst með henni upplifa draum sinn um að sigla ein um Atlantshafið. Hún stefnir á Ascension-eyjar sem eru sunnan miðbaugs milli Afríku og Suður-Ameríku. En draumaferðin hennar tekur óvænta stefnu þegar hún lendir í stormi og eftir að honum lygnir sér hún fiskibát. Um hundrað flóttamenn eru í fiskibátnum og við það að drukkna. Hún hringir eftir hjálp sem virðist ekki vera á næsta leiti og hún þarf því að taka mikilvægar ákvarðanir og með hraði.
Mynd Turajlić er á mörkum heimildarmyndar og leikinnar myndar. Á heimili móður Turajlic eru dyr sem ekki hafa verið opnaðar í 70 ár. Móðir hennar er prófessor í háskólanum í Belgrad og lék mikilvægt hlutverk í pólitískri andstöðu við serbneska einræðisherrann Slobodan Milosevic á tíunda áratug síðustu aldar. Verkið er marglaga og leiðir áhorfandann inn í sögu Serbíu og fjölskyldu Turajlic. Allt frá því að Belgrad var frelsuð árið 1945, í gegnum kommúnismann frá 1946, stúdenta óeirðirnar 1968, Balkanstríðin á tíunda áratugnum, NATO-árásirnar 1999, fall einræðisherrans árið 2000 og til dagsins í dag,“ segir í fréttatilkynningu frá RIFF.