Burt Reynolds - síðasta átrúnaðargoðið

Burt Reynolds hlaut Emmy-verðlaunin fyrir hlutverk sitt í Evening Shade …
Burt Reynolds hlaut Emmy-verðlaunin fyrir hlutverk sitt í Evening Shade árið 1991. AFP

Burt Reynolds lést á spítala í Flórída í gær, 6. september, 82 ára að aldri eftir hjartaáfall. Reynolds var ekki bara einn frægasti leikari í heimi heldur líka vinsælt kyntákn. Yfirvaraskegg hans þótti til dæmis algjörlega einstakt. 

Fram kemur á vef BBC að Reynolds hafi ekki alltaf stefnt á Hollywood en hann þótti efnilegur ruðningskappi og hlaut skólastyrk til að stunda nám við Florida State University. Hann stefndi á að verða atvinnumaður en hnémeiðsli í fyrsta stóra leiknum í háskóla bundu þó skjótan enda á draum hans. „Þetta fór illa með mig,“ sagði hann seinna um atvikið. „Faðir minn tók því örugglega verr en ég - hann var niðurbrotinn.“

Reynolds ákvað því að taka enskutíma til þess að fá starf sem skilorðseftirlitsmaður. Leiklistarferill hans hófst þó þegar kennari hans fékk hann til að taka þátt í leikriti eftir að hafa heyrt hann fara með Shakespeare og fékk Reynolds í kjölfarið leiklistarverðlaun í Flórída árið 1956. 

Sló í gegn í Deliverance

Reynolds flutti til New York og kynntist þar fólki í leiklistarbransanum. Hann var valinn í verk á vegum Neighborhood Playhouse en ekki ómerkari menn en Gregory Peck, Dustin Hoffman og Robert Duvall tóku sín fyrstu skref á leiksviðinu þar. Hann fékk fleiri tækifæri en átti erfitt með að ná endum saman þangað til hann fékk hlutverk í sjónvarpi á sjöunda áratugnum.

Burt Reynolds árið 1972.
Burt Reynolds árið 1972. AFP

Reynolds sló hins vegar ekki almennilega í gegn fyrr en í myndinni Deliverance sem kom út árið 1972. Í myndinni fer hann með hlutverk Lewis Medlocks sem fer ásamt þremur vinum sínum á kanósiglingu í Georgíuríki. Reynolds drukknaði næstum því við tökur á myndinni en framleiðendurnir létu leikarana framkvæma sín eigin áhættuatriði í sparnaðarskyni. Sjálfur sagði Reynolds seinna í viðtali að hann stæði í þeirri trú að ákveðin nektarmynd í Cosmopolitan árið 1972 hefði kostað hann tilnefningu til Óskarsverðlaunanna fyrir hlutverk sitt í Deliverance.

Burt Reynolds í mars 2018.
Burt Reynolds í mars 2018. AFP

Á áttunda áratugnum og í byrjun þess níunda var Reynolds á hápunkti frægðar sinnar og myndir sem hann lék í algjör gullnáma fyrir framleiðendur. Myndir á borð við Smokey and the Bandit, Starting Over og The Best Little Whorehouse in Texas gengu vel í miðasölu. 

Fór á hausinn

Það orð fór af Reynolds að það væri erfitt að vinna með honum og að hann væri kvensamur. Hann viðurkenndi seinna að hegðun hans hefði haft slæm áhrif á feril sinn. Hann hegðaði sér einnig illa þegar kom að peningum og eyddi þeim í lúxusfasteignir, einkaþotu, þyrlu og sérsmíðaða bíla. Að lokum fór svo að hann lýsti sig gjaldþrota árið 1996 eftir að hafa tapað 20 milljónum Bandaríkjadala þegar tvær veitingakeðjur sem hann átti hlut í fóru á hausinn auk þess að hafa tekið þátt í fleiri áhættusömum fjárfestingum. Hann náði sér á strik aftur en árið 2014 lenti hann aftur í peningavandræðum og neyddist til þess að selja mikið af eignum sínum. 

Reynolds náði að rétta aðeins úr kútnum þegar hann lék í Boogie Nights árið 1997 en þar lék hann klámmyndaleikstjóra og hlaut meðal annars tilnefningu til Óskarsverðlaunanna. Myndin kynnti hann fyrir áhorfendahópi sem hafði ekki séð hann þegar hann var sem vinsælastur. Hann þótti einnig góður í Pups and Time of the Wolf. Peningavandræðin fengu hann þó til að taka að sér slæm hlutverk í byrjun 21. aldarinnar. 

Á síðasta ári hlaut hann góðar viðtökur fyrir hlutverk sitt í myndinni The Last Movie Star. Hann var því enn á fullu þegar hann lést. Í desember á þessu ári er áætluð frumsýning á myndinni Defining Moments. Ekki er heldur langt síðan hann var sagður eiga í viðræðum um að taka að sér hlutverk George Spahns í Once Upon a Time In Hollywood, mynd Quentins Tarantinos. 

Missti af góðum hlutverkum

„Ég kynnti mig ekki fyrir nýjum höfundum af því að ég hafði ekki áhuga á að ögra mér sem leikara. Ég hafði áhuga á að skemmta mér,“ skrifaði Reynolds í endurminningum sínum, But Enough About Me, árið 2015. „Fyrir vikið missti ég af mörgum tækifærum til þess að sýna að ég gæti leikið alvarleg hlutverk. Þegar ég loks vaknaði og reyndi að breyta til vildi enginn gefa mér tækifæri.“

Reynolds hafnaði mörgum hlutverkum, þar á meðal Han Solo í fyrstu Stjörnustríðsmyndinni sem og hlutverki sjálfs James Bonds. Hann hafnaði líka hlutverki Garretts Breedloves í Terms of Endearment en það fór svo að Jack Nicholson fór heim með Óskarinn fyrir hlutverkið. 

Síðasta átrúnaðargoðið í Hollywood

Margar stjörnur hafa minnst leikarans síðan tilkynnt var um andlát hans. „Eitt af síðustu átrúnaðargoðunum í Hollywood,“ tísti tennisstjarnan Boris Becker. Lord of the Rings-stjarnan Elijah Wood lýsti hins vegar andlátinu líkt og goðsögn hefði látist. 

„Burt Reynolds var ein af mínum hetjum. Hann var brautryðjandi,“ tísti Arnold Schwarzenegger. „Hann sýndi leiðina frá því að vera íþróttamaður yfir í það að verða launahæsti leikarinn, hann var mér ávallt innblástur. Hann var líka með frábæran húmor - kíkið á brot af Tonight Show með honum. Hugur minn er hjá fjölskyldu hans.“

Reynolds var giftur tvisvar, fyrst giftist hann bresku leikkonunni Judy Carne árið 1963 en þau skildu tveimur árum seinna. Hann giftist bandarísku leikkonunni Loni Anderson árið 1988 og ættleiddu þau soninn Quinton. Hjónaband Anderson og Reynolds endaði illa árið 1993.

Eitt frægasta samband Reynolds var við leikkonuna Sally Field en þau áttu í fimm ára ástarsambandi í lok áttunda áratugarins. Reynold lýsti því seinna yfir að Field hefði verið ástin í lífi hans.

Burt Reynolds með þáverandi konu sinni Loni Anderson.
Burt Reynolds með þáverandi konu sinni Loni Anderson. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að bregðast við og verja þig og þína gegn utanaðkomandi þrýstingi sem er ósanngjarn og í raun rangur.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Anna Sundbeck Klav
5
Patricia Gibney
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að bregðast við og verja þig og þína gegn utanaðkomandi þrýstingi sem er ósanngjarn og í raun rangur.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Anna Sundbeck Klav
5
Patricia Gibney