Tónlistarfólkið Jón Jónsson og Selma Björnsdóttir eru veðurteppt á Akureyri en þau áttu flug í morgun til Reykjavíkur eftir að hafa skemmt þar í gær. Þegar blaðamaður náði í Jón var hann ekki viss um af hverju þau væru veðurteppt enda búinn að nýta aukatímann á Akureyri í morgunmatnum á hótelinu og var að búa sig undir ferð númer tvö.
„Dagurinn átti að fara í almennt plögg hjá mér þar sem miðasalan á árlegu tónleikana mína í desember hófst klukkan tíu en ekkert flug í morgun, það er næst vitað í hádeginu hvort það sé flogið. Ef það er ekki flogið þurfum við að taka bíl af því að Selma Björnsdóttir þarf að komast í bæinn. Hún er með tónleika í kvöld í Salnum með Jóni Ólafssyni,“ segir Jón sem ætlaði líka að fara í bíó með konunni sinni í kvöld.
Jón var að gefa út lagið Með þér í dag og ætlaði að heimsækja allar útvarpsstöðvar í Reykjavík í dag. Jón mun taka lagið á stórtónleikum sínum í Háskólabíói 21. desember en ekki er um hefðbundna jólatónleika að ræða. Jón segir að hann taki bara eitt til tvö jólalög en annars mun hann bara flytja sín eigin lög.