Kanadíski rapparinn Jon James er látinn, en hann hrapaði til bana af væng lítillar flugvélar. Rapparinn var að taka upp tónlistarmyndband er slysið varð, en hann var þekktur fyrir að leika djörf áhættuatriði í tónlistarmyndböndum sínum.
Það gekk þó ekki í þetta sinn, en rapparinn hugðist ganga um á væng flugvélarinnar og rappa lag sitt á meðan kvikmyndatökumenn tækju gjörninginn upp úr annarri flugvél.
Í tilkynningu frá aðstandendum til kanadískra fjölmiðla segir að flugmaður flugvélarinnar, lítillar Cessnu, hafi misst stjórn á henni er rapparinn fikraði sig út á vænginn í miðju flugi.
„Cessnan fór í kuðungsferil niður á við sem flugmaðurinn gat ekki leiðrétt. Jon hélt í vænginn þar til það var orðið of seint, og þegar hann sleppti hafði hann ekki tíma til þess að virkja fallhlíf sína. Hann lenti og lést samstundis,“ segir í tilkynningunni.
Lík rapparans, sem hét fullu nafni Jon James McMurray, fannst á akri norðan við Vernon í Bresku-Kólumbíu, en flugmaður vélarinnar náði að lenda henni heilu og höldnu í kjölfar slyssins. Samgönguyfirvöld í Kanada rannsaka tildrög slyssins.
Hér að neðan má sjá myndband Jon James við lagið HELLO sem kom út árið 2015. Þar rappar hann lag sitt á meðan hann fellur og svífur til jarðar í fallhlífarstökki.
Hér að neðan má svo sjá rapparann, ásamt Rory Bushfield vini sínum, framkvæma ýmis áhættuatriði fyrr á þessu ári.