Þjóðleikur í öllum landshlutum

Björn Ingi Hilmarsson, verkefnastjóri Þjóðleiks, fremst á mynd, Ólafur Egill …
Björn Ingi Hilmarsson, verkefnastjóri Þjóðleiks, fremst á mynd, Ólafur Egill Egilsson í fremstu röð til vinstri og leiðbeinendur leikhópa. Eggert Jóhannesson

Leiklistarverkefnið Þjóðleikur, sem Þjóðleikhúsið hleypti af stokkunum fyrir tíu árum, hefur vaxið og dafnað ár frá ári. Markmiðið var frá upphafi skýrt og hefur ekkert breyst: Að tengja Þjóðleikhúsið á lifandi hátt við ungt fólk, 13-20 ára, á landsbyggðinni og efla þannig bæði áhuga þess og þekkingu á listforminu.

„Verkefnið, sem er tvíæringur, hófst á Austurlandi, en hefur síðan breiðst út til sex annarra landshluta; Suðurlands, Reykjaness, Vesturlands, Vestfjarða, Norðurlands eystra og Norðurlands vestra. Með leikhópa Þjóðleiks í öllum landshlutum er hringnum nú lokað,“ segir Björn Ingi Hilmarsson, leikari, leikstjóri og deildarstjóri barna- og fræðslustarfs Þjóðleikhússins, og heldur áfram:

„Fyrirkomulagið er með þeim hætti að annað hvert ár eru þrjú eða fjögur þekkt, íslensk leikskáld fengin til að skrifa krefjandi og spennandi leikrit fyrir ungt fólk. Í samráði við leiðbeinanda leikhópsins, sem verður að vera eldri en tvítugur, velja ungmennin síðan eitt verkanna til að setja upp í sinni heimabyggð og njóta til þess stuðnings fagfólks frá Þjóðleikhúsinu. Á vorin er svo alltaf mikið um dýrðir þegar blásið er til leiklistarhátíðar þar sem leikhópar, sem oft eru nokkrir í hverjum landshluta, koma saman og hver og einn sýnir sína uppfærslu. Hátíðin er vettvangur fyrir leikhópana að sýna sig og sjá aðra og ræða saman um leiklist og leikrit. Á hátíðinni sjá leikarar og áhorfendur glögglega hversu ólíkar leiðir hægt er að fara að einum og sama textanum,“ segir Björn Ingi í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu í dag. 

Verkefnisstjóri frá Dalvík

Björn Ingi er verkefnisstjóri Þjóðleiks og tók hann við starfanum af Vigdísi Jakobsdóttur, sem að hans sögn á bæði heiðurinn af hugmyndinni og framtakinu. „Þjóðleikur á sér fyrirmynd í Þjóðleikhúsinu í London, en er á allan hátt lagaður að íslenskum aðstæður. Mér er bæði ljúft og skylt að leggja mitt af mörkum sem starfsmaður Þjóðleikhússins til að efla leiklistarstarf meðal ungs fólks í dreifbýlinu. Sjálfur er ég frá Dalvík, þar sem ég tók þátt í leiklist þegar ég var unglingur, og hefði gjarnan viljað vera með í svona verkefni,“ segir Björn Ingi og bætir við að oftast tengist Þjóðleikur leiklistarstarfi skólanna.

Á tíu árum hafa nokkur leikskáld þjóðarinnar samið samtals fjórtán leikrit sérstaklega fyrir Þjóðleik og mörg hundruð ungmenni hafa verið virkjuð til þátttöku í uppsetningu þeirra. „Í tilefni af tíu ára afmælinu ætlum við að líta yfir farinn veg og bjóða unga fólkinu upp á „brot af því besta“ ef svo má að orði komast,“ segir Björn Ingi og á við að leikritin fjögur sem valið stendur um að þessu sinni séu ekki splunkuný af nálinni. Enda hafi þau verið skrifuð á mismunandi tímum og verið sett upp af leikhópum Þjóðleiks á árum áður.

Leikritin sem urðu fyrir valinu og leikhóparnir setja upp á lokahátíðinni næsta vor eru Tjaldið eftir Hallgrím Helgason, Eftir lífið eftir Sigtrygg Magnason, Dúkkulísa eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur og Íris eftir þau Brynhildi Guðjónsdóttur og Ólaf Egil Egilsson.

Ólík viðfangsefni

Spurður af hverju einmitt þessi verk hafi verið valin og hvort þau eigi eitthvað sammerkt svarar Björn Ingi að þau hafi öll ákveðna skírskotun til samtímans, feli í sér áskorun í uppfærslu og séu einfaldlega bæði skemmtileg og áhugaverð. „Viðfangsefnin eru ólík, en leikritin eiga það sameiginlegt að hverfast um ungt fólk og ýmis málefni sem á því brenna. Undirtónninn er á stundum alvarlegur. Til dæmis skrifaði Hallgrímur Tjaldið í kjölfar nokkurra nauðgunarmála sem upp komu á útihátíðum og leggur út af hinu svokallaða Gillzenegger -máli, þar sem stúlka kærði nauðgun, en málið var látið niður falla. Svo notuð séu orð leikskáldsins þá speglar leikritið þann miskunnarlausa „lögfræðilega“ veruleika, sem stundum getur staðið í hróplegri andstöðu við það sem í raun og veru gerðist,“ segir Björn Ingi og stiklar á stóru um hin þrjú verkin:

Dúkkulísa eftir Þórdísi Elvu fjallar um unga stúlku sem verður ólétt eftir skólabróður sinn. Íris þeirra Brynhildar og Ólafs Egils á sér margar, ólíkar hliðar, stundum er hún glaða stelpan, stundum agressíva stelpan eða stelpan í ruglinu svo dæmi séu tekin. Í leikriti Sigtryggs, Eftir lífið, er sögusviðið samnefndur staður þar sem gamalt fólk sem deyr endurholdgast í fimmtán ára unglingum og mögulega af gagnstæðu kyni en það var í lifanda lífi.“

Augljós ávinningur

Varðandi leikritið Íris bendir Björn Ingi á að þótt verkið fjalli um eina stelpu bjóði það upp á að margar leikkonur fari með hlutverkið. „Eða strákar, ef því væri að skipta, enda höfundarnir ævinlega opnir fyrir samtali. Leikrit Þjóðleiks bjóða alla jafna upp á mörg hlutverk, enda mikilvægt að fá sem flesta til þátttöku. Kristín Gestsdóttir, kennari og leiðbeinandi frá upphafi Þjóðleiks, skrifaði MA-ritgerð um verkefnið og kemst að sömu niðurstöðu og fjöldi rannsókna að þátttaka ungmenna í ferli af þessu tagi sé valdeflandi og hjálpi þeim að setja sig í spor annarra.“

Annars segir Björn Ingi að ávinningur Þjóðleiks sé afar fjölþættur. Áhrifin blasi við í auknum áhuga ungs fólks á leikhúsi og afstöðu til þess á þeim landsvæðum sem verkefnið hefur náð til. Þar hafi skólar líka í auknum mæli boðið upp á valáfanga í leiklist og orðið hafi til frjór vettvangur samvinnu kennarra og annarra sem áhuga hafa á að vinna að leiklist með ungu fólki.

„Svo má ekki gleyma því að oft vantar mótvægi við möguleikana sem standa til boða í íþróttum. Leiklistin er góður kostur og ábyggilega betri fyrir marga,“ segir Björn Ingi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér hættir til í hita augnabliksins að missa stjórn á skapi þínu, sem er ekki gott. Gakktu hægt um gleðinnar dyr og mundu að á morgun er nýr dagur með nýjum tækifærum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Kathryn Hughes
3
Torill Thorup
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Steindór Ívarsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér hættir til í hita augnabliksins að missa stjórn á skapi þínu, sem er ekki gott. Gakktu hægt um gleðinnar dyr og mundu að á morgun er nýr dagur með nýjum tækifærum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Kathryn Hughes
3
Torill Thorup
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Steindór Ívarsson
Loka