Elskaði aðdáendur sína

Marvel-goðsögnin Stan Lee lést í gær.
Marvel-goðsögnin Stan Lee lést í gær. Ljósmynd/AFP

Skapari Marvel-ofurhetjanna, Stan Lee, er látinn, 95 ára að aldri. Lee er þekktur fyrir myndasögur sínar um Spider Man, X-Men, Hulk og Avengers svo fáeinar séu nefndar og þykir hafa umbylt poppkúltúrnum með myndasögum sínum.

Marvel-goðsögnin Stan Lee dó snemma á mánudagsmorgun í Los Angeles samkvæmt helstu fréttaveitum vestanhafs en hann hafði glímt við veikindi í nokkur ár. Dánarorsökin var lungnabólga. 

Aðdáendur Stan Lee hafa lagt blóm og bréf á stjörnu …
Aðdáendur Stan Lee hafa lagt blóm og bréf á stjörnu hans á Hollywood Walk of Fame. Ljósmynd/ AFP

Hóf myndasöguferil fyrir tilviljun

Lee var þekktur sem andlit myndasögubóka og blaða í Bandaríkjunum og var næstum því jafnfrægur og hans helstu verk. „Faðir minn elskaði aðdáendur sína,“ sagði dóttir hans J.C. Lee við fréttaveitu Reuters í gær. „Hann var mikilfenglegur maður og heiðvirður. Honum fannst hann skulda aðdáendum sínum að halda áfram að skapa. Hann elskaði líf sitt og atvinnu. Fjölskylda hans elskaði hann og aðdáendur hans elskuðu hann.“

Stan Lee fæddist í New York árið 1922 í kreppunni miklu. Hann hóf feril sinn fyrir tilviljun og þakkaði það frænda sínum sem kom honum í hlutastarf þegar hann var unglingur við að fylla blekbyttur teiknara og sækja handa þeim kaffi. 

Fangaði ímyndunarafl lesenda

Lee hét réttu nafni Stanley Lieber. „Ég ætlaði alltaf að skrifa bandarískar stórbókmenntir og mig langaði ekki að setja alvörunafn mitt á þessar vitleysis teiknimyndabækur,“ sagði hann eitt sinn, skrifar AFP.  

Lee hóf feril sinn hjá DC-Comics. Stjarna hans fór fljótlega að skína innan myndasöguheimsins en hann fangaði ímyndunarafl lesenda með sögum um ævintýralega heima og fólk með ofurkrafta. Hann varð svo útgefandi Marvel-veldisins i marga áratugi, eða þar til árið 1971, en Marvel bækurnar seldust í um 50 milljónum eintaka á ári þegar vinsældir þeirra stóðu sem hæst.

Hann vann einnig með öðrum myndasöguhöfundum og teiknurum að gerð bóka um Black Panther, köngulóarmanninn Spiderman, X-Men, Fantastic Four, Iron Man, Thor og Dr. Strange svo fáeinar séu nefndar. Kvikmyndir um margar af þessum hetjum hafa halað inn hundruð milljóna dollara. 

Hér að neðan má sjá samantekt The Guardian um lífshlaup Stan Lee. 

Stan Lee hefur brugðið fyrir í smáhlutverkum í næstum því hverri einustu Marvel-kvikmynd, meðal annars sem strætóbílstjóra í Avengers: Infinity War en í þeirri mynd sameinuðust margar hetjur Marvel-bókanna.

Fjölmargir hafa minnst Lee á samfélagsmiðlum undanfarinn sólarhring. „Hjartað brestur, hvíl í friði frumkvöðull og goðsögn,“ tísti ástralski leikstjórinn James Wan sem leikstýrði Saw og Insidious og Aquaman, nýrri Marvel-ofurhetjumynd sem er væntanleg innan skamms. „Æska mín hefði ekki verið söm ef hann hefði ekki verið til. Ég er svo þakklátur fyrir að hafa hitt hann og sagt honum hversu þakklátur ég er fyrir verk hans. #stanlee“

Árið 2000 sagði Lee í viðtali við breska dagblaðið The Guardian að auðveldasti hlutinn við starf sitt væri að fá hugmyndir. „Það erfiðasta er bara að fá nóg af teiknurum til að teikna þær allar upp. Að skrifa sögur er það sem ég geri. Ég hugsa um þær, það er ekki vandamál. Ég þarf bara að finna tímann til að skrifa þær allar.“

Aðdándur Stan Lee hafa minnst hans á Twitter undir myllumerkinu #StanTheMan

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir