Kalt stríð hlaut flest verðlaun

Paweł Pawlikowski hampar einum af verðlaunagripunum sem kvikmynd hans, Kalt …
Paweł Pawlikowski hampar einum af verðlaunagripunum sem kvikmynd hans, Kalt stríð, hlaut á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum. Ljósmynd/Ewa Ferdynus fyrir EFA

Evrópsku kvikmyndaverðlaunin, EFA, voru afhent í Sevilla á Spáni í 31. sinn í kvöld og voru tveir Íslendingar á meðal tilnefndra að þessu sinni, Sverrir Guðnason sem hlaut tilnefningu sem besti leikari fyrir túlkun sína á tennisstjörnunni Björn Borg í Borg/McEnroe og Halldóra Geirharðsdóttir sem var tilnefnd sem besta leikkona fyrir túlkun sína á baráttukonunni Höllu í kvikmynd Benedikts Erlingssonar, Kona fer í stríð. Hvorugt hlaut verðlaun en tilnefningin engu að síður mikill heiður.

Mesta spennan ríkti að vanda um hvaða leikna kvikmynd hlyti verðlaunin sem sú besta en til að teljast gjaldgengar verða tilnefndar kvikmyndir að hafa verið frumsýndar í kvikmyndahúsi á tímabilinu 1. júní 2017 til 31. maí 2018. Stjórn verðlaunanna má þó gera undantekningar á þessari reglu.

Fimm kvikmyndir voru tilnefndar: sænska myndin Gräns eða Mæri á íslensku; hollenska myndin Girl, Stúlka; ítalska myndin Dogman, Hundamaðurinn; pólska myndin Zimna wojna eða Kalt stríð og ítalska myndin Lazzaro felice, Lasarus hinn glaði. Sú síðastnefnda hlaut kvikmyndaverðlaun evrópskra háskóla, EUFA, sem afhent voru í mótttökuteiti EFA-hátíðarinnar í gær, 14. desember. Allar kvikmyndirnar fimm þóttu sigurstranglegar en þó sérstaklega Kalt stríð, eftir því sem blaðamaður komst næst þegar rætt var við evrópska kollega sem fylgdust með og fjölluðu um verðlaunin.

Fjölmiðlamenn þustu að ítalska leikaranum Marcello Fonte sem mætti óvænt …
Fjölmiðlamenn þustu að ítalska leikaranum Marcello Fonte sem mætti óvænt með verðlaunastyttuna sína baksviðs, nýkrýndur besti leikari Evrópu. Ljósmynd/Helgi Snær Sigurðsson

Þrjú heiðruð

Vegna mikils fjölda verðlauna hafði þegar verið tilkynnt um nokkur þeirra fyrir hátíðina auk þess sem tveir leikarar og einn leikstjóri skyldu heiðraðir sérstaklega: Englendingurinn Ralph Fiennes fyrir framlag sitt til evrópskrar kvikmyndalistar, gríski leikstjórinn Costa-Gavras sem  hlaut sérstök heiðursverðlaun Evrópsku kvikmyndaakademíunnar og leikkonan Carmen Maura sem var heiðruð fyrir ævistarfið en hún er ein þekktasta og virtasta leikkona Spánar. Af öðrum verðlaunahöfum má nefna Martin Otterbeck sem hlaut verðlaun fyrir bestu kvikmyndatöku, fyrir U - July 22, norsku kvikmyndina um fjöldamorðin í Útey í Noregi. Fyrir bestu klippingu hlaut Jaroslaw Kaminski verðlaunin fyrir Kalt stríð, fyrir bestu frumsömdu tónlist Julian Maas fyir 3 Tage in Quiberon, Þrír dagar í Quiberon og verðlaun fyrir tæknibrellur hlaut Peter Hjorth fyrir Mæri.

Palma í stuði

Eins og við mátti búast hófst verðlaunahátíðin með flamenkó-dansi og -tónlistarflutningi, annað hefði líklega þótt undarlegt í hinni erkispænsku og undurfögru Sevilla, þar sem tapasbarir eru á hverju horni og fólk brestur í söng og dans af minnsta tilefni. Spænska kvikmyndastjarnan Rossy de Palma gerði sér lítið fyrir og stal senunni af þokkafullum karldansara, steig flamenkódans af mikilli ástríðu og minnti meira á sirkusstjóra en kynni á sviðinu, slíkur var ákafinn. Af viðbrögðum gesta að dæma lagðist spaug Palma misjafnlega í fólk, sumir voru sem steinrunnir en aðrir hlógu innilega. Og það átti við um kvöldið í heild, margir brandarar fóru fyrir ofan garð og neðan en sem betur fer var oftar en ekki hlegið.

Óvæntur sigur

Í flokkum bestu leikara og leikkvenna var samkeppnin hörð og erfitt að spá fyrir um úrslitin. Þótti Victor Polster þó einna sigurstranglegastur fyrir túlkun sína á stúlku í líkama drengs í Girl . Það var hins vegar Marcello Fonte sem hreppti verðlaunin fyrir leik sinn í Dogman og hélt hann þakkarræðu á ítölsku sem enginn skildi nema þeir sem tala ítölsku, eins og gefur að skilja. Þeir sem skildu ræðuna hlógu mikið en ekki fer neinum sögum af því hvað Fonte var að segja. Sverrir Guðnason gekk sáttur frá borði enda heiður að vera tilnefndur yfirleitt, eins og hann sagði í samtali við ofanritaðan degi fyrr.

Marcello Fonte tekur við verðlaunum sem besti leikari.
Marcello Fonte tekur við verðlaunum sem besti leikari. AFP

 

Girl verðlaunuð af gagnrýnendum

Sérstök verðlaun samtaka kvikmyndagagnrýnenda, FIPRESCI, European Discovery eða evrópsk uppgötvun, hlaut kvikmyndin Girl og klöppuðu þá fjölmiðlamenn, augljóslega sáttir við valið og 16 ára aðalleikari myndarinnar, Victor Polster, brosti breitt. Og talandi um káta fjölmiðlamenn þá urðu þeir býsna hissa og enn kátari þegar Marcello Fonte birtist allt í einu með verðlaunastyttuna sína í fjölmiðlasalnum, settist niður og fór að rabba við viðstadda. Sló þetta fólk út af laginu, margir ruku til og tóku myndir og gleymdu um stund að fylgjast með verðlaunaafhendingunni. Fonte lét sig fljótlega hverfa og gátu fjölmiðlamenn og -konur þá aftur einbeitt sér að hátíðinni.

Tilkynnt var um bestu evrópsku teiknimyndina í fullri lengd, hina pólsku Another day of life eftir leikstjórana Raul de la Fuente og Damian Nenow. Sú er sannsöguleg og segir af þriggja mánaða langri ferð pólsks blaðamanns til Angóla árið 1975 þegar þar geisaði borgarastríð. 

 

Tárvotur Gavras

Verðlaun fyrir besta handrit hlaut Pólverjinn Paweł Pawlikowski fyrir Kalt stríð og þakkaði hann m.a. foreldrum sínum en handritið er að hluta innblásið af ævi þeirra og ástarsögu. Var þá komið að því að veita Costa-Gavras heiðursverðlaun og var það leikstjórinn Wim Wenders, forseti Evrópsku kvikmyndaakademíunnar, sem veitti þau. Hélt hann mikla lofræðu um Costa-Gavras og sagði hann m.a. aldrei hafa óttast að láta í ljós pólitískar skoðanir í kvikmyndum sínum, m.a. Z sem er líklega hans þekktasta verk. Var ekki annað að sjá en að Costa-Gavras táraðist yfir ræðu Wenders sem var stutt en falleg. Costa-Gavras sagði Evrópu illa stadda og vísaði þar til stjórnmálaástandsins en sagðist bjartsýnn ef allir stæðu saman.

Costa-Gavras þakkar fyrir sig með því að lúta höfði.
Costa-Gavras þakkar fyrir sig með því að lúta höfði. AFP

Áfram hélt svo illskiljanlegt grín kynna kvöldsins, tveir þeirra dásömuðu hvor annars skegg og enginn í salnum hló. Brandarahöfundar EFA 2018 verða líklega ekki vera ráðnir aftur á næsta ári.  

Kulig sú besta

Og þá voru það verðlaunin fyrir bestu leikkonu. Halldóra virkaði pollróleg þegar myndavélin beindist að henni og sagt var frá hlutverki hennar í Kona fer í stríð. Var samkeppnin mjög hörð í þessum verðlaunaflokki, jafnvel harðari en í flokki leikara. Þegar búið var að greina frá öllum tilnefningum stökk Flamenkódansarinn þokkafulli upp á borð á sviðinu og steig villtan dans í dágóða stund. Gestir og sjónvarpsáhorfendur áttu greinilega ekki að gleyma því hvar hátíðin væri haldin. Verðlaunin hlaut Joanna Kulig fyrir leik sinn í Köldu stríði. 

 

Bönnuð í Rússlandi

Besta gamanmynd Evrópu að þessu sinni var Death of Stalin, Dauði Stalíns, og kom það fáum á óvart því myndin hefur hvarvetna hlotið mikið lof. Leikstjóri hennar, Armando Iannucci, sagði að nú væru viðstaddir komnir á bannlista í Rússlandi en bætti við að þeir væru hólpnir svo lengi sem þeir snæddu ekki neitt eða drykkju það sem eftir væri kvöldsins. Kvikmyndin hefði nefnilega verið bönnuð í Rússlandi og lýsti hann frati á þá ákvörðun rússneskra yfirvalda með einföldum hætti, prumpuhljóði.

Ekki var írski leikstjórinn Jim Sheridan minna fyndinn en hann var næstur á svið og sagði gönguna þangað mestu líkamsrækt sem hann hefði stundað í háa herrans tíð. „Ég átti að segja að þið mættuð ekki monta ykkur ef þið fáið verðlaunin en gerið það endilega,“ sagði Sheridan og tilkynnti hver hlyti verðlaun fyrir bestu stuttmynd. Það var Sara Fgaier, leikstjóri Gli anni, The Years í enskri þýðingu.

Skoski leikstjórinn Armando Iannucci með verðlaunin fyrir bestu gamansmynd, Dauða …
Skoski leikstjórinn Armando Iannucci með verðlaunin fyrir bestu gamansmynd, Dauða Stalíns. AFP




Enska ekki í líkamanum

Carmen Maura felldi tár þegar farið var fögrum orðum um leiklistarhæfileika hennar og mikilvægi fyrir spænska kvikmyndagerð. Wenders hélt ræðu á spænsku og sagðist vera maður á barmi taugaáfalls, vísaði með því í eina þekktustu kvikmynd Pedro Almodóvar, Konur á barmi taugaáfalls, sem Maura lék i á sínum tíma og fór á kostum.

„Ég er mjög ánægð með þessi verðlaun,” sagði Maura grátandi uppi á sviði og að hún væri afar stolt af því að vera spænsk leikkona. „Ég tala ensku mjög illa,” sagði hún eftir að hafa óvart skipt yfir í móðurmálið. „Enska er ekki í líkama mínum,” bætti hún við og var þá skellihlegið í salnum. Í geðshræringu sinni skipti Maura í sífellu úr ensku yfir í spænsku og meira að segja frönsku og steig svo undir lokin dans við þokkafulla flamenkódansarann margnefnda, Andrés Marín.

Carmen Maura alsæl að lokinni verðlaunaafhendingu.
Carmen Maura alsæl að lokinni verðlaunaafhendingu. AFP



Næst voru kynnt verðlaun fólksins, People’s Choice Awards, en þau eru fengin með netkosningu kvikmyndaáhugamanna. Verðlaunin hlaut Call Me By Your Name eftir ítalska leikstjórann Luca Guadanigno.

 Og enn Kalt stríð

Hin eftirsóttu verðlaun besti leikstjóri Evrópu hlaut Pawel Pawlikowski fyrir Kalt stríð og voru það fjórðu verðlaun kvikmyndarinnar þetta kvöld. Var þá orðið ljóst að Kalt stríð væri sigursælasta kvikmynd verðlaunahátíðarinnar í ár og ekki ólíklegt að hún bætti fimmtu verðlaununum við undir lokin, fyrir bestu kvikmynd. Verðlaun fyrir bestu heimildarmynd hlaut hins vegar sænska kvikmyndagerðarkonan Jane Magnusson fyrir Bergman - ett år, ett liv, eða Bergman  - eitt ár, eitt líf, sem fjallar um Ingmar Bergman, einn merkasta leikstjóra kvikmyndasögunnar.


Bæði enskur og evrópskur

Þriðji og síðasti heiðursverðlaunahafi kvöldsins var Ralph Fiennes, sjálfur Voldemort. Fúlskeggjaður tók Fiennes við verðlaunastyttunni góðu úr hendi spænsku leikkonunnar Victoriu Abril sem skartaði skærbleiku hári. „Ég skrifaði langa ræðu með fáum bröndurum,“ sagði Fiennes pollrólegur í upphafi ræðu sinnar og dásamaði borgina fögru Sevilla. Velti svo fyrir sér hvað það þýddi að vera evrópskur. Er hægt að vera enskur og evrópskur? Já, sagði Fiennes en greinilega væri Evrópa í krísu, þar ríkti víða sundrung og á Englandi væri þjóðin klofin í Brexit-málinu. Kvikmyndir væru þó eftir sem áður áhrifamiklar, næðu yfir landamæri og gætu sameinað fólk. Fiennes sagðist bæði stoltur og hrærður yfir því að hljóta verðlaunin og þakkaði m.a. foreldrum sínum fyrir stuðning þeirra í list hans og lífi. 

Jane Magnusson hlaut verðlaun fyrir bestu heimildarmynd.
Jane Magnusson hlaut verðlaun fyrir bestu heimildarmynd. AFP

Og besta kvikmyndin er …

Rúsínan í pylsuendanum var besta kvikmynd Evrópu og hlaut enski leikarinn Chiwetel Ejiofor þann heiður að kynna verðlaunin. Sagði hann evrópskar kvikmyndir ekki þekktar fyrir hamingjuríkan endi og var dátt hlegið að þeim ummælum. Kalt stríð var það a lokum, besta evrópska kvikmyndin 2018 og kom það fáum á óvart. Fimm verðlaun komin í hús og pólskur sigur að þessu sinni.

Ralph Fiennes.
Ralph Fiennes. AFP




Pawel Pawlikowski, leikstjóri Kalds stríðs, fyrir miðju með helstu aðstandendum …
Pawel Pawlikowski, leikstjóri Kalds stríðs, fyrir miðju með helstu aðstandendum kvikmyndarinnar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar