„Þetta er mikill heiður og ég er svo glöð yfir því að hún ætli að gera þetta,“ segir leikkonan Halldóra Geirharðsdóttir þegar erlendur blaðamaður spyr hana að því hvað henni finnist um að Jodie Foster ætli að endurgera kvikmyndina Kona fer í stríð sem hún fer með aðalhlutverkið í.
Við erum stödd í viðtalsherbergi á gömlu og afar fallegu hóteli í einu af eldri hverfum Sevilla á Spáni að morgni laugardags, 15. desember, en þá um kvöldið voru Evrópsku kvikmyndaverðlaunin afhent í 31. sinn.
Halldóra var tilnefnd sem besta leikkona fyrir leik sinn í Kona fer í stríð og voru fimm aðrar tilnefndar. Verðlaunin hlaut pólsk leikkona, Joanna Kulig.
„Sem kona verð ég oft svo leið á því, þegar ég horfi á kvikmyndir, að konur þurfi alltaf að vera ægilega kynþokkafullar en Jodie hefur aldrei farið þá leið heldur einbeitt sér að sögunni sem verið er að segja,“ heldur Halldóra áfram. Hún sé því sannfærð um að Foster muni leggja áherslu á söguna umfram annað.
„Hún er með svo sterkan kjarna og vilja sem er nauðsynlegur fyrir þetta hlutverk,“ segir Halldóra og að forvitnilegt verði að sjá hvaða leið Foster fari í sinni útgáfu. Endurgerðin verði sniðin að bandarískum veruleika.
Kona fer í stríð fjallar um kórstjórann Höllu sem sagt hefur álfyrirtækjum stríð á hendur með því að vinna skemmdarverk á raflínum og stöðva þannig mengandi framleiðslu þeirra. Hún veit að með þessu er hún að brjóta lög, fer því huldu höfði og kemst oft nærri því að vera handtekin. Þegar henni býðst að ættleiða úkraínska stúlku ákveður hún að láta af skemmdarverkunum en fyrst þarf hún að ljúka verkinu, fara í eina lokaferð upp á hálendið sem raflínumöstrin liggja um.
Halldóra bendir á að Kona fer í stríð eigi ekki minna erindi við Bandaríkjamenn en Íslendinga og Evrópubúa. „Maður missir aðeins kraftinn á þessum tímum sem við lifum núna, hvað varðar hlýnun jarðar,“ segir Halldóra, „við finnum fyrir því að kerfið er stærra en við og að við getum ekki haft hraðar hendur.“ Halldóra segir að bregðast verði við ástandinu með hraði og vernda með því komandi kynslóðir. Listamennirnir, þeir sem segja sögurnar, verði að vekja athygli á þessu hrikalega ástandi. „Það þarf að segja þessa sögu núna en ekki eftir fimm eða tíu ár,“ segir Halldóra með áherslu.
Hún segir kvikmyndina varpa fram spurningunni um hvort sé meira virði, ósnortin náttúra til framtíðar eða peningarnir sem fást með mengandi stóriðju og eyðileggingu náttúrunnar. „Við fórnuðum afar stóru landsvæði fyrir eitthvað sem átti að afla okkur gríðarlegra tekna og útvega mikinn fjölda starfa. Þetta átti að gera svo mikið fyrir þjóðina en gerði það bara í sjö ár og svo voru verkamennirnir aðallega erlendir af því að þeir íslensku voru of dýrir. Þetta var eins og þrælahald fyrir erlent vinnuafl,“ segir Halldóra.
Í Kona fer í stríð grípi Halla til þess örþrifaráðs að eyðileggja flutningskerfi raforku til áliðnaðarins. Hún reyni þannig að þvinga álfyrirtækin til að hætta starfsemi sinni á Íslandi því hún sé hreinlega of áhættusöm. Þannig geti hún líka komið í veg fyrir fleiri virkjanir með tilheyrandi eyðileggingu á náttúrunni og aukinni mengun.
Ofanritaður spyr Halldóru að því hvað hún eigi sameiginlegt með Höllu og svarar hún því til að báðar séu þær með stórt hjarta. „Persónulega hef ég lagt mitt af mörkum til barnaverndar, ég hef unnið með Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, farið utan á vegum hennar og sagt frá þeim ferðum. Ég er talskona UNICEF á Íslandi og í mínum huga tengist þetta tvennt, að vernda börn og náttúruna því náttúran er börnin. Náttúran er framtíð barna okkar og barnabarna,“ segir Halldóra. Hún hafi því átt auðvelt með að setja sig í spor Höllu.
Erlend blaðakona spyr hvað hafi verið erfiðast við hlutverk Höllu, mesta áskorunin og segir Halldóra að líkamlega hafi hlutverkið oft verið erfitt, t.d. þegar hún þurfti að hlaupa aftur og aftur sömu torfæru leiðina og svo auðvitað þegar hún þurfti að skella sér út í ískalda jökulá. „Ég var í búningi undir fötunum en líkaminn sagði mér að ég ætti ekki að fara út í jökulá,“ segir Halldóra og hlær. Líkaminn hafi vitað hvað biði hans. „Ég gerði öll áhættuatriðin sjálf og ég sagðist vera til í að fara út í jökulána ef ég þyrfti ekki að gera neitt eftir það,“ segir Halldóra kímin.
En henni varð ekki að ósk sinni því að loknum tökum á því atriði kom aðstoðarleikstjórinn til hennar og sagði eitt atriði eftir þann dag. Halldóra þyrfti að ganga upp á Valahnúk svo hægt væri að taka upp atriði þar sem Halla horfir af fjallinu yfir ægifagra náttúruna. „Ég hugsaði þá með mér að ef ég væri Angelina Jolie hefði ég verið flutt í þyrlu upp á fjallið!“ segir Halldóra og hlær innilega.
Hún er spurð að því hvort hún telji kvikmyndir geta haft áhrif til breytinga. „Já, maður verður að trúa því að starf manns geti breytt heiminum,“ svarar Halldóra. „Ég tel að sögur geti breytt heiminum, frásagnarlist í formi kvikmynda, leikrita, blaðagreina,“ heldur hún áfram, „þannig að við berum mikla ábyrgð og verðum að gangast við henni, nota hana af skynsemi og bera höfuð hátt.“ Halldóra segir afar mikilvægt að sýna mannlega reisn og vera ábyrgur samfélagsþegn, leggja sitt af mörkum til að bæta heiminn.
Ofanritaður spyr Halldóru hvort hún hafi hug á að starfa meira erlendis og segist hún gjarnan vilja gera það. „Ég vildi að ég gæti starfað með fleira fólki í heiminum, ekki bara á eyjunni okkar litlu. Ég hef alltaf óttast að fólk fái leiða á mér og þegar maður tilheyrir 300.000 manna þjóð getur það auðveldlega gerst. Þess vegna finnst mér ég alltaf þurfa að finna upp á einhverju nýju í hverju hlutverki svo fólk verði ekki leitt á mér. Mig hefur dreymt um það í nokkur ár að fá að starfa annars staðar líka, svo fólk fái ekki leiða á mér,“ segir Halldóra og brosir, segist líklega þurfa að fá sér erlendan umboðsmann. „Ég er bjartsýn, ef það gerist þá gerist það. Ég hef farið í leikprufur en það hefur ekkert komið út úr þeim,“ segir hún.
Hér má sjá stiklu fyrir Kona fer í stríð:
– Færðu þessa tilfinningu sem þú nefndir áður en þú ferð á leiksvið, að fólk sé búið að fá leiða á þér?
„Ég hef starfað í leikhúsi í 25 ár og er haldin stöðugum ótta um að breytast í húsgagn, að fólk komi inn í leikhúsið og hugsi: „Æ, þarna er stóllinn Halldóra Geirharðsdóttir“ eða „ó, þarna er sófinn Halldóra Geirharðsdóttir.“ Að ég verði eitthvað sem fólk á von á að sjá og hefur ekkert breyst og kemur ekki á óvart heldur er bara þarna. Þetta er djúpstæður ótti um að fólk geri ráð fyrir því að ég sé húsgagn. En ég vil að fólk komi í leikhúsið og verði hissa á því að ég sé stóll, sófi eða borð. Ég vil vera þannig.“