Margir þekktir einstaklingar kvöddu á árinu sem er að líða. Ástæða er til, á þessum síðustu dögum ársins 2018, að minnast þess fólks. Athuga ber þó að listinn er alls ekki tæmandi.
Janúar
Doloroes O’Riodan, söngkona írsku rokkhljómsveitarinnar „The Cranberries“, lést þann 15. janúar eftir að hafa drukknað í baðkari á hótelherbergi aðeins 46 ára að aldri.
Ingvar Kamprad, stofnandi IKEA, lést á heimili sínu þann 27. janúar, 91 árs að aldri.
Jóhannes Gunnarsson, fyrrverandi formaður Neytendasamtakanna lést 6. janúar, 68 ára að aldri.
Þorsteinn frá Hamri, skáld lést 28. janúar, 79 ára að aldri.
Febrúar
Íslenska tónskáldið Jóhann Jóhannsson fannst látinn á heimili sínu í Berlín þann 9. febrúar, 48 ára að aldri.
Indverska Bollywood-stjarnan Sridevi Kapoor drukknaði í baðkari á hótelherbergi þann 24. febrúar, 54 ára að aldri.
Hinrik prins, eiginmaður Margrétar Þórhildar Danadrottningar, lést 13. febrúar, 83 ára að aldri.
Mars
Franski fatahönnuðurinn Hubert de Givenchy, lést á heimili sínu þann 10. mars, 91 árs að aldri.
Raunvísindamaðurinn Stephen Hawking lést á heimili sínu þann 14. mars, 76 ára að aldri. Hawking var einn áhrifamesti vísindamaður síðustu aldar.
Apríl
Winnie Madikizela-Mandela, fyrrverandi eiginkona Nelson Mandela og baráttukona fyrir réttindum svartra íbúa Suður-Afríku, lést á sjúkrahúsi þann 2. apríl eftir langvinn veikindi, 81 árs að aldri.
Tékknesk-ameríski leikstjórinn Milos Forman lést þann 13. apríl eftir stutt veikindi, 86 ára að aldri. Forman var hvað þekktastur fyrir kvikmyndir sínar „One Flew Over the Cuckoo's Nest“ og „Amadeus“, en hann hlaut Óskarsverðlaunin fyrir leikstjórn sína í báðum myndum.
Eiginkona 41. forseta Bandaríkjanna, George H.W. Bush og móðir 43. Forseta Bandaríkjanna, George W. Bush, Barbara Bush, lést 92 ára að aldri þann 17. apríl.
Sænski plötusnúðurinn Tim Bergling, einnig þekktur sem Avicii, fannst látinn þann 20. apríl í Muscat, höfuðborg Óman, 28 ára að aldri.
Maí
Bandaríski skáldsagnahöfundurinn og blaðamaðurinn Tom Wolfe lést þann 14. maí, 88 ára að aldri.
Bandaríski smásagna- og skáldsöguhöfundurinn Philip Roth lést þann 22. maí í kjölfar hjartastopps, 85 ára að aldri.
Júní
Ameríski handtöskuhönnuðurinn Kate Spade fannst látin á heimili sínu þann 5. júní, 55 ára að aldri.
Bandaríski matreiðslumaðurinn og sjónvarpspersónan Anthony Bourdain fannst látinn í Frakklandi þann 8. júní, 61 árs að aldri.
Bandaríski tónlistarmaðurinn XXXTentacion var skotinn til bana í Flórída þann 18. júní, 20 ára að aldri.
Ágúst
Bandaríska söngkonan Aretha Franklin lést úr krabbameini þann 16. ágúst, 76 ára að aldri. Franklin var ein frægasta söngkona síðustu aldar og oft kölluð „Drottning sálarinnar.“
Kofi Annan, fyrrverandi aðalritari Sameinuðu Þjóðanna, lést eftir skammvinn veikindi þann 18. ágúst, 80 ára að aldri.
Íslenski leikarinn Stefán Karl Stefánsson lést þann 21. ágúst eftir baráttu við krabbamein, 43 ára að aldri.
Þingmaður repúblíkana og forsetaframbjóðandi, John McCain, lést þann 25. ágúst eftir árs langa baráttu við krabbamein, 81 árs að aldri.
September
Hollywood-stjarnan Burt Reynolds lést úr hjartaáfalli þann 6. september, 82 ára að aldri.
Danski tónlistarmaðurinn Kim Larsen lést 30. september, 72 ára gamall.
Október
Paul Allen, meðstofnandi tæknirisans Microsoft, lést þann 15. október eftir baráttu við krabbamein, 65 ára að aldri.
Nóvember
Teiknimyndasögugoðsögnin Stan Lee, hugmyndasmiður persóna á borð við Spider-Man, Hulk, Iron Man og fleiri, lést þann 12. nóvember, 95 ára að aldri.
41. forseti Bandaríkjanna, George H.W. Bush, lést þann 30 nóvember, 94 ára að aldri, nokkrum mánuðum á eftir eiginkonu sinni til 73 ára.
Desember
Ísraelski skáldsagnahöfundurinn og baráttumaður fyrir friði í Palestínu, Amos Oz, lést úr krabbameini þann 28. desember, 79 ára að aldri.