AMC hefur tryggt sér sýningarréttinn á sjónvarpsþáttaröðinni Stellu Blómkvist í Norður-Ameríku. Þáttaröðin verður tekin til sýningar 31. janúar á streymisþjónustu AMC, Sundance Now, sem einnig er aðgengileg á Amazon Prime. Stella Blómkvist var frumsýnd í Sjónvarpi Símans Premium árið 2017 og sló þá öll áhorfendamet á veitunni, að því er segir í fréttatilkynningu.
Þegar hafa þættirnir verið sýndir á Viaplay alls staðar á Norðurlöndunum og víðsvegar annars staðar í Evrópu. Fyrr á árinu tryggði NBC Universal sér sýningarréttinn á þáttunum í Frakklandi og Spáni, en þar eru þeir fáanlegir á spænsku og frönsku.
„Þetta eru virkilega ánægjulegar fréttir, þá sérstaklega vegna þess að þetta sannar enn og aftur gæði íslensks sjónvarpsefnis og árangur þess á erlendum mörkuðum,“ segir Hilmar Sigurðsson, forstjóri Sagafilm, í fréttatilkynningu.