Samfélagsmiðlastjörnurnar Sólrún Diego og Camilla Rut hafa ákveðið að hætta á forritinu Snapchat. Þessu greindu þær frá á útvarpsstöðinni FM957 í gær og einnig á sínum miðlum.
Þær Sólrún og Camilla hafa miðlað miklu af sínu efni í gegnum forritið á síðustu árum og öðlast tugþúsundir fylgjenda þar í gegn. Þær hafa nú ákveðið að loka þessum miðli. Þær eru þó ekki hættar að láta til sín taka á samfélagsmiðlum og munu miðla efni sínu í gegnum Instagram.
Eftir að Instagram kynnti til sögunnar Instagram stories í ágúst 2016 hafa margir notendur miðlanna beggja farið að nota Instagram stories meira en Snapchat. Í apríl 2017 voru daglegir notendur Instagram stories 200 milljónir en á sama tíma voru daglegir notendur Snapchat stories aðeins 166 milljónir.