Enski leikarinn, kyntáknið og kvikmynda- og sjónvarpsþáttastjarnan Idris Elba mun fara með aðalhlutverkið í næstu kvikmynd Baltasars Kormáks, Deeper, sem tökur hefjast á hér á landi í lok maí á þessu ári. Þetta staðfestir Baltasar sem er staddur í Los Angeles þegar blaðamaður nær tali af honum, erindi leikstjórans þar að vinna í kvikmyndahandriti sem nefnist Arctic 30 og að funda með ráðamönnum fyrirtækisins sem framleiðir Deeper, MGM.
Tökur myndarinnar munu fara fram í nýju myndveri framleiðslufyrirtækis Baltasars, RVK Studios, í Gufunesi og á hafi úti, líklega í Faxaflóa, að sögn leikstjórans. „Þetta verður sennilega fyrsta stóra myndin sem verður tekin öll upp á Íslandi,“ bendir Baltasar á, „stúdíóið býður upp á þennan möguleika, að gera þetta.“
Hann segir fjölda Íslendinga munu koma að gerð myndarinnar og einhverja útlendinga, eins og gefur að skilja. „Þetta hefur verið draumur minn, að reisa þetta stúdíó og geta komið með verkefni til Íslands og unnið það,“ segir Baltasar og stutt er í að sá draumur verði að veruleika.
Hann er spurður að því hvort fleiri leikarar hafi verið ráðnir í kvikmyndina og segir hann svo ekki vera, verið sé að skoða þau mál en Elba sé í burðarhlutverkinu. „Þetta er svolítið mikið „one man show“ en við vorum einmitt að ræða um aðra leikara á fundi í gær hjá MGM. Það er bara ekki komið lengra en planið er að taka myndina í lok maí, byrja tökur þá og þetta er komið á fullt, byrjað að byggja og svona.“
–Vildir þú fá Elba í hlutverkið?
„Já, þetta var algjörlega minn draumur að fá hann og fyrst var mér sagt að það gengi ekki, að hann væri að gera eitthvað annað á þessum tíma. Þá lét ég færa tökurnar og þetta gekk upp,“ svarar Baltasar. „Stúdíóið var einmitt að tala um það í gær hvað það væri ánægt með að ég hefði ýtt svona á þetta, hann er svo funheitur núna, karlinn,“ bætir leikstjórinn við sposkur. Elba sé á miklu flugi þessa dagana. „Ég vildi fá einhvern með mikla persónutöfra því hann heldur eiginlega uppi myndinni.“
–Ertu búinn að hitta Elba?
„Já, já, við erum búnir að hittast tvisvar og þetta er bara frábær náungi og flottur gaur. Þannig að þetta er bara spennandi.“
Kvikmyndin segir af fyrrverandi geimfara sem ræður sig í hættulegt verkefni, að kafa niður á mesta dýpi sjávar. Er Deeper lýst sem yfirskilvitlegri spennumynd á hinum ýmsu kvikmyndavefjum og mun Elba lenda í miklum háska á ferð sinni í sérhönnuðu djúpsjávarfari, eins og nærri má geta, óvæntir atburðir munu eiga sér stað.
Baltasar er spurður að því hvort hlutverk Elba sé hetjuhlutverk og segir hann svo ekki vera. „Nei, þetta er „twisted“ gæi og þetta er mikið innra ferðalag,“ segir hann og að myndin falli ekki í flokk svokallaðra „survival“ kvikmynda, þ.e. kvikmynda sem fjalla um fólk sem þarf að berjast fyrir lífi sínu andspænis náttúrunni. Hún sé miklu heldur sálartryllir, „psycho thriller“ eins og það heitir á ensku.
–Þú vilt yfirleitt hafa allt sem raunverulegast í þínum kvikmyndum, tókst Djúpið og Adrift til dæmis að mestu leyti upp úti á sjó en þú ferð varla að kafa með Idris Elba niður á hafsbotn?
Baltasar hlær að spurningunni og segir það því miður ekki mögulegt. Hann reyni þó alltaf að hafa sem mest raunverulegt í sínum kvikmyndum, hvort heldur er á sjó eða landi. Í Everest hafi hann til að mynda tekið upp eins stóran hluta kvikmyndarinnar og hægt var á fjallinu.