Stjörnurnar er farnar að streyma á rauða dregilinn í Royal Albert Hall í Lundúnum þar sem verðlaunahátíð bresku kvikmyndaakademíunnar, BAFTA, verða veitt í kvöld.
Viola Davis, Amy Adams, Richard E. Grant, Glenn Close, Melissa McCarthy og Richard Madden eru á meðal þeirra sem eru mætt í sínu fínasta pússi, að ógleymdum hertogahjónunum af Cambridge, Vilhjálmi og Katrínu.
Hátíðin er haldin í 72. skipti og verða veitt verðalun í 24 flokkum. Kynnir kvöldsins er leikkonan Joanna Lumley og er þetta annað árið í röð sem hún gegnir því hlutverki.
The Favourite með Oliviu Colman í hlutverki Önnu Englandsdrottningar hlaut flestar tilnefningar eða 12 talsins. Þrjár kvikmyndir eru tilnefndar til sjö verðlauna: First Man, Roma og A Star is Born.
Lady Gaga, sem er tilnefnd fyrir hlutverk sitt í A Star is Born, verður hins vegar fjarri góðu gamni þar sem hún er tilnefnd til Grammy-verðlaunanna sem verða einmitt veitt í kvöld í Los Angeles. Bradley Cooper, mótleikari Lady Gaga og leikstjóri myndarinnar, verður hins vegar í salnum.
Sjálf verðlaunaafhendingin hefst klukkan 21 en á Twitter-síðu BAFTA má sjá fjöldann allan af viðtölum við stjörnurnar á rauða dreglinum.