Ýr Jóhannsdóttir hefur prjónað undir nafninu Ýrurari undanfarin sex ár en frá því í haust hafa peysur hennar slegið rækilega í gegn á samfélagsmiðlinum Instagram. Meðal þeirra sem hafa keypt peysurnar hennar er stílisti Miley Cyrus og Erykah Badu.
„Ég hef verið að prjóna verk undir nafninu Ýrúrarí frá 2012,“ útskýrir Ýr. „Síðustu tvö eða þrjú ár hef ég verið að vinna með það að framkvæma hugmyndirnar mínar á notaðar peysur frekar en að prjóna peysur frá grunni. Í haust tók ég þátt í endurvinnslusýningunni „Endalaust“ í Duus-húsum á vegum Handverks og hönnunar og gerði fyrir þá sýningu tríó af peysum, ein þeirra var svo peysa sem af einhverjum ástæðum varð virkilega vinsæl á Instagram seinna um veturinn.“
Erykah Badu hafði samband
Umrædd peysa heitir Sleik og er einmitt alsett munnum og tungum. Upp úr þessum vinsældum segir Ýr mjög margt fólk hafa byrjað að hafa samband, þar á meðal var stílisti bandarísku söngkonunnar Miley Cyrus. „Ég sendi upprunalegu peysuna beint út til þeirra og er bara að bíða og vona að hún Miley ákveði að nota hana úr öllum þeim fötum sem hún á,“ segir hún.
„En svo stuttu síðar heyrði tónlistarkonan Erykah Badu í mér og hefur verið alveg yndisleg. Fyrst keypti hún af mér einu peysuna sem ég átti eftir, en svo fékk ég að hitta hana í persónu í síðustu viku þegar hún stoppaði við í New York í tvo daga, en ég dvel einmitt þar þennan mánuðinn þar sem ég er með innsetningu í glugga Textile Arts Center í Manhattan-stúdióinu þeirra. Það var mjög áhugaverð upplifun að komast nálægt svona stórstjörnu og frábært hvað hún var almennileg, hrósaði mér fyrir allt það sem ég hef búið til og keypti svo af mér fjórar peysur sem ég átti til til að hafa til sýnis í innsetningunni minni. Nú á ég bara eina peysu eftir svo það er spennandi að sjá hver hefur samband næst!“
Peysan Sleik sló í gegn á Instagram.
Ljósmynd/Aðsend
Uppskrift að peysunni væntanleg
„Ég er núna að fara að gefa út lítinn uppskriftarbækling með uppskriftinni að tungumunninum sem er á peysunni sem Miley er núna með, þá geta allir spreytt sig á að gera sína eigin og ég get eytt tímanum mínum í að gera eitthvað nýtt,“ útskýrir Ýr. „Svo eru einhver svona spennandi samstörf í pípunum með öðrum einstaklingum sem hafa haft samband, og alls konar áhugavert fólk sem er að kíkja á mig hérna úti. En ef fólk er áhugasamt að fylgjast með hef ég verið að reyna mitt besta til að vera virk með instagram-reikninginn minn @yrurari.“
Önnur Sleik-peysa.
Mynd/Instagram