Fatahönnuðurinn Karl Lagerfeld lést í gær, þriðjudaginn 19. febrúar, og seinna sama dag var tilkynnt að Virginie Viard hefði tekið við keflinu hjá Chanel. Stóra spurningin er þó sú hver erfir auðæfi Lagerfelds sem talin eru vera um 150 milljónir punda. Þjóðverjinn átti hvorki börn né var kvæntur.
Kötturinn Choupette var einn allra nánasti vinur Lagerfeld. Evening Standard rifjar upp orð Lagerfeld sem greindi frá því í fyrra að kötturinn væri meðal þeirra sem myndi erfa hann. Hvernig það verður útfært er annað mál. Líklega eru ófáir sem vilja taka köttinn að sér enda frægasti köttur tískusögunnar.
Talið er líklegt að fyrirsætan Brad Kroening sem er þekktur fyrir að hafa veitt Lagerfeld andagift gæti erft eitthvað. Ellefu ára gamall sonur hans og guðsonur Lagerfeld, Hudson Kroening, er einnig sagður líklegur. Hudson hefur meðal annars komið fram á tískusýningum Lagerfelds.