Leikkonan Gwyneth Paltrow ætlar ekki að sitja undir kæru 72 ára gamals manns vegna skíðaslyss í Utah árið 2016 og hefur sjálf lagt fram kæru gegn manninum. Fer leikkonan fram á 1 Bandaríkjadal í skaðabætur vegna slyssins. BBC greinir frá þessu.
Maðurinn lagði fram kæru gegn Paltrow nú í janúar, næstum þremur árum eftir slysið. Hann hlaut heilahristing og braut fjögur rifbein þegar leikkonan, að hans sögn, klessti á hann í brekkunni, og fer fram á 3,1 milljón í skaðabætur.
Í lögsókn Paltrow er því hins vegar haldið fram að maðurinn hafi sjálfur klesst á leikkonuna, beðist afsökunar og fullvissað hana um að hann væri óslasaður. Hann hafi alls ekki misst meðvitund við áreksturinn líkt og haldið er fram í lögsókn mannsins gegn Paltrow.
Er maðurinn sakaður um að reyna að nýta sér frægð og auðæfi leikkonunnar þremur árum eftir áreksturinn og er skaðabótakrafa Paltrow, 1 dollari, táknræn.