Orri Páll Ormarsson
Bandaríski leikarinn Mahershala Ali þykir líklegur til að hreppa sinn annan Óskar á þremur árum þegar verðlaunin verða veitt í Los Angeles í nótt. 2017 hlaut hann Óskarinn sem besti leikari í aukahlutverki í Moonlight og nú er hann tilnefndur í sama flokki fyrir Green Book.
Ali leikur þar tónlistarmanninn dr. Don Shirley og hefur frammistaðan þegar skilað honum Golden Globe-verðlaununum. Fari Ali með sigur af hólmi verður hann aðeins annar blökkumaðurinn í sögunni til að hreppa Óskarinn tvisvar og sá fljótasti til að næla sér í tvö stykki frá því Tom Hanks vann verðlaunin tvö ár í röð, 1994 og 1995.
Finnist ykkur Mahershala Ali vel í lagt, prófið þá fullt nafn leikarans, Mahershalalhashbaz Ali, upphaflega Gilmore. Hann er af kristnu foreldri og nafnið kemur beint úr hinni helgu bók. Ali er að mestu alinn upp hjá móður sinni en faðirinn yfirgaf þau til að freista gæfunnar í söngleikjum á Broadway. Lítið samband var milli feðganna eftir það. Ali þótti hið kristna uppeldi íþyngjandi, sem varð til þess að hann sökkti sér í heimspeki og trúarbrögð. Niðurstaðan var sú að taka íslamstrú árið 2000 og breyta nafninu í Ali. „Þetta var lógískt þá en síðan kom 11. september,“ segir hann og viðurkennir að erfiðara hafi verið að vera múslimi í Bandaríkjunum síðan.
Nánar er fjallað um Ali í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.