Bandaríska hljómsveitin The Black Eyed Peas kemur fram á tónlistarhátíðinni Secret Solstice í júní. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í morgun. Þar segir að öllu verði tjaldað til og að von sé á 35 manna fylgdarliði með hljómsveitinni, þar á meðal dönsurum, ljósamönnum, hljóðmönnum og öryggisvörðum. Þetta verður í fyrsta skipti sem hljómsveitin kemur fram hér á landi.
Hljómsveitin var stofnuð árið 1995 en skaust upp á stjörnuhimininn árið 2003 með plötunni Elephunk sem innihélt meðal annars lagið Where´s the Love.
Hljómsveitin hefur unnið til sex Grammy-verðlauna og á yfir tuttugu ára ferli sveitarinnar hafa orðið til ýmsir smellir og má þar helst nefna I Gotta Feeling, My Humps, Boom Boom Pow og Let´s Get It Started. Það er því ljóst að gestir Secret Solstice mega búast við heljarinnar partýi á tónleikum hljómsveitarinnar, en hátíðin fer fram dagana 21.-23. júní.
Von er á tilkynningu frá skipuleggjendum Secret Solstice síðar í dag um fleiri listamenn sem munu koma fram á hátíðinni í Laugardalnum í sumar og bætast í hóp The Black Eyed Peas, Robert Plant, Rita Ora, Morcheeba, Pussy Riot og Foreign Beggars.