„Nú er gríðarleg vinna í gangi, við erum að leggja lokahönd á atriðið og þurfum að gera það hreinlega í þessari viku því að við þurfum að skila öllu af okkur til framkvæmdaaðila í Tel Aviv á mánudaginn,“ segir Felix Bergsson, fararstjóri íslenska hópsins í Eurovision, sem hefur staðið í ströngu frá því að atriðið var valið sem framlag Íslands í Eurovision í ár síðastliðinn laugardag.
Segja má að endanlegt útlit atriðsins verði því að vera klárt um helgina. „Við þurfum að ganga frá öllu í sambandi við sviðsmyndina og skila myndum af því hvernig fólkið verður klætt á sviðinu.“
Aðspurður hvort búast megi við breytingum á atriðinu frá því á laugardag segir Felix að það sé vel mögulegt. „Þetta er fjöllistahópur og sviðslistafólk sem vill halda áfram að bæta hlutina og þetta var bara fyrsta frumsýning hérna heima og svo eiga þau aðra fyrir höndum. Ég held að engum blandist hugur um það að þetta er það allra flottasta sem við höfum séð, sviðslistalega séð, í þessari keppni,“ segir Felix.
Felix og Birna Ósk Hansdóttir, sem eru í forsvari fyrir íslenska Eurovision-hópinn, munu svo halda til Tel Aviv um helgina og funda með skipuleggjendum keppninnar ásamt fulltrúum allra þáttökuþjóðanna. „Þar verður farið yfir allar hliðar keppninnar,“ segir Felix.
Líkt og alþjóð líklega veit eftir sigur Hatara um helgina er fjöllistahópurinn skipaður þeim Matthíasi Tryggva Haraldssyni, Klemens Hannigan og Einari Stefánssyni. Hópurinn skilgreinir sig hins vegar ekki sem hljómsveit heldur sem fjöllistahóp og með þeim á sviðinu verða dansararnir Sólbjört Sigurðardóttir, Ástrós Guðjónsdóttir og Sigurður Andrean Sigurgeirsson.
Sexmenningarnir verða á sviðinu í Tel Aviv, líkt og í atriðinu á laugardaginn, en átta manns tilheyra fjöllistahópnum. „Þau eru skemmtilega öðruvísi, við erum ekki bara að fara með einn söngvara með undirspilið sitt heldur erum við með meiri og víðari pakka að þessu sinni, sem er gríðarleg vinna en ótrúlega skemmtilegt og spennandi,“ segir Felix.
Alls verða Eurovision-fararnir í íslenska hópnum á bilinu til 16-20 að sögn Felix og verður sérstakt teymi sem sér um að halda utan um búninga hópsins. „Ég er reyndar ekki kominn svo langt að vita hvað ég þarf að tékka inn margar ferðatöskur, en þetta er leður og groddalegir og stórir búningar og það verður meiri háttar mál ef eitthvað rifnar eða slitnar, þá er þetta bara eins og að kalla eftir skósmið.“ Leikmyndin verður hins vegar smíðuð úti í Ísrael, það er turnarnir tveir sem dansararnir verða inni í.
Álagið verður mikið næstu tvær vikurnar en síðan á Felix von á ögn rólegri tíma „áður en PR-málin verða tekin með trompi.“ Felix gerir ráð fyrir að Hatari muni ferðast um hluta Evrópu í apríl og koma fram á nokkrum tónleikum í tengslum við undirbúning fjöllistahópsins fyrir Eurovision.
Heldur óhefðbundin staða er í markaðsmálum þegar kemur að atriðinu, en Felix man ekki eftir því að hafa þurft að bægja frá fjölmiðlum frekar en að bjóða þeim heim, líkt og staðan er núna.
„Það er ný staða en okkar sýn er að atriðið fái að tala fyrir sig sjálft og þurfi ekki á útskýringu að halda. En það loga allar línur og allt að verða vitlaust. Við fögnum því að sjálfsögðu en Hatari ætlar að passa sig að fara ekki fram úr sér í yfirkeyrslu á þessum hlutum og einbeita sér frekar að því að koma listaverkinu á svið.“