„Ef einhverjir halda þeir séu á leiðinni til Tel Aviv án pólitísks áróðurs gætu þeir ekki haft meira rangt fyrir sér,“ segir Matthías Haraldsson, liðsmaður Hatara, í viðtali við breska dagblaðið Independent.
Independent tók þá Matthías og Klemens Hannigan tali nokkrum dögum fyrir úrslitakvöld Söngvakeppninnar, en viðtalið birtist á vef fjölmiðilsins í dag.
Þar segir Matthías að hver sá sem stígur á svið í Ísrael sé í raun að senda pólitísk skilaboð bara með því að taka þátt í keppninni, en talsvert hefur verið kallað eftir því að Evrópuþjóðirnar sniðgangi keppnina vegna mannréttindabrota Ísraelsríkis gagnvart Palestínu.
„Þú getur ekki farið til Tel Aviv og komið fram á sviðinu án þess að brjóta reglur Eurovision. Það á við um okkur og alla aðra. Og þú getur heldur ekki verið þögull um ástandið, þar sem þögnin er í sjálfri sér yfirlýsing líka,“ segir Matthías.
Síðar í viðtalinu, þegar fjallað er um áskorun Hatara á forsætisráðherra Ísraels í íslenskri glímu, segir Matthías að þeirra vald sem hirðfífl sé að kalla fram umræðu. „Okkar skilaboð eru viðvörun sem afhjúpar distópíuna sem á sér stað í Evrópu, Ameríku, alls staðar í heiminum.“
„Við munum sigra Eurovision 2019. Enn sem komið er gengur allt samkvæmt plani. Söngvakeppnin var enn annað skrefið í hruni kapítalismans og afhjúpun svikamyllu hversdagslífsins. Við erum bleiki fíllinn í stofunni.“