Bandaríski tónlistarmaðurinn Scott Walker er látinn 76 ára að aldri. Walker sem upphaflega hét Scott Engel og var fæddur í Ohio-ríki í Bandaríkjunum, sló í gegn með Walker-bræðrum í Bretlandi um miðjan sjöunda áratuginn. Um tíma voru vinsældir þeirra jafnvel sagðar meiri en hjá sjálfum Bítlunum í Bretlandi og var talað um bandarísku innrásina sem andsvar við vinsældir breskra hljómsveita í Bandaríkjunum.
Barítón-rödd Walkers var stór þáttur í hljómi sveitarinnar en einnig lék hann á bassa, gítar og hljómborð. Hlutirnir gerðust hratt á sjöunda áratugnum og frá árunum 1967-1969 gaf Walker út fjórar sólóplötur sem þykja enn vera mikill fjársjóður fyrir tónlistarunnendur. Scott og Scott 2, Scott 3 og Scott 4 náðu miklum vinsældum í Bretlandi og í Evrópu. Existensíalískir textar, stórar strengjaútsetningar og fágaður stúdíóhljómur einkennir verkin.
Þarna var Walker á hátindi ferils síns og Scott 3 náði til að mynda á topp breska vinsældalistans. Það er erfitt að ímynda sér að einhver af poppstjörnum nútímans myndi fara að semja ópus um Sjöunda innsigli Bergmans líkt og Walker gerði á fjórðu plötunni. Hann var undir miklum áhrifum frá franska söngvaskáldinu Jacques Brel og innihéldu plöturnar gjarnan útgáfur af lögum Frakkans.
Fjölmargir hafa talað um Walker sem mikinn áhrifavald og Thom Yorke vottaði honum virðingu sína á Twitter í morgun og sagði Walker hafa haft mikil áhrif á Radiohead í gegnum tíðina.
Eftir mikla velgengni og framleiðslu í kringum 1970 fölnaði frægð Walkers og Walker-bræður komu saman um stutta stund á áttunda áratugnum. Ein plata kom út á níunda áratugnum en árið 1995 sneri hann aftur með Tilt. Dökkt, minimalískt og framúrstefnulegt verk sem á lítið sameiginleggt með sixtís barokk-poppinu þótt alvörugefið hafi verið. Eftir fylgdu plöturnar The Drift og Bish Bosch en á þessum tímapunkti var Walker þó löngu kominn í dýrlingatölu hjá tónlistarunnendum. Hann dró sig úr sviðsljósinu og varð sífellt hlédrægari. Frábær heimildamynd var gerð um hann árið 2006 sem heitir 30 Century Man eftir samnefndu lagi meistarans. Þar er farið í gegnum feril hans og rætt við fólk eins og David Bowie, Brian Eno og Jarvis Cocker um Walker.