Söngvari Rolling Stones, Mick Jagger, er á leið í hjartaaðgerð þar sem þarf að skipta um hjartaloku og það er ástæða þess að hljómsveitin frestaði á laugardag tónleikaferðalagi um Norður-Ameríku.
Breska hljómsveitin tilkynnti á laugardag að No Filter-tónleikaferðalaginu yrði frestað vegna veikinda Jagger án þess að það kæmi fram hver ástæðan væri. Nú hefur tónlistartímaritið Rolling Stone upplýst um ástæðuna sem og Drudge Report. Aðgerðin verður gerð á föstudag í New York.
Mick Jagger var ráðlagt af læknum að fresta tónleikaferðalaginu en að hann megi gera ráð fyrir fullum bata, sagði meðal annars í tilkynningunni á laugardag.
Jagger skrifaði sjálfur á Twitter að honum þætti þetta mjög leitt gagnvart öllum þeim sem ættu miða á tónleika Rolling Stone í Bandaríkjunum og Kanada. Hann ætli sér að komast sem fyrst á svið að nýju.
Jagger sem er 75 ára gamall á átta börn, 5 barnabörn og eitt langafabarn. Hljómsveitin hefur starfað óslitið frá árinu 1962 eða í 57 ár. Til stóð að Rolling Stones myndi spila á 17 tónleikum í Norður-Ameríku.