Stórleikarinn og gleðigjafinn Jóhann G. Jóhannsson, eða Jói G. eins og hann er kallaður, er að snúa aftur á Stóra svið Þjóðleikhússins.
Jói sem sneri sér nær alfarið að sjónvarps- og kvikmyndaleik fyrir nokkrum árum, hefur samkvæmt heimildum mbl.is, samþykkt að leika í stórsýningunni Sjeikspír verður ástfanginn sem frumsýnd verður í haust.
Nýlega var þess getið að ungstirnið Aron Mola færi með titilhlutverkið í sýningunni og nú hefur Jói G. bæst í hópinn sem má fullyrða að styrkist gríðarlega með innkomu hans.
Jói hefur ekki setið auðum höndum frá því hann yfirgaf leiksviðið síðast en hann hefur leikið í fjölmörgum erlendum sjónvarpsverkefnum á borð við Fortitude, Arctic circle og Rig 45.
Miðað við verkefnastöðuna erlendis hjá Jóa er því ljóst að Hollywood þarf að bíða á meðan hann leikur listir sínar í Þjóðleikhúsinu næsta vetur.