Kim Kardashian West hefur látið sig málefni fanga varða og nú segist hún vera byrjuð að búa sig undir lögmannspróf. Raunveruleikastjarnan sem er ekki með háskólamenntun segir í nýju viðtali við Vogue að hún stefni á að fá lögmannsréttindi árið 2022. Í nokkrum ríkjum í Bandaríkjunum er hægt að fara aðra leið en að klára lögfræði í háskóla til þess að taka lögmannspróf. Þarf fólk þá að vera í læri hjá lögmönnum eða dómurum.
Kardashian upplýsir að hún hafi hafið fjögurra ára starfsnám hjá lögmannsstofu í San Francisco til þess að búa sig undir prófið. Ætlar hún að sérhæfa sig í refsirétti. Hún tók ákvörðunina síðasta sumar og hefur þurft að vinna 18 tíma á viku undir handleiðslu lögmanns. Hluti af starfsnáminu fer fram í gegnum netið svo hún þarf ekki alltaf að ferðast til San Francisco. Kim Kardashian segir stolt frá því að hún hafi fengið tíu í sínu fyrsta prófi. Í sumar mun Kardashian West taka próf sem segir til um hvort hún geti haldið áfram næstu þrjú árin.
Var það lögfræðingurinn Jessica Jackson sem sá að Kardashian West bjó yfir hæfileikum í lögfræði og nefndi hugmyndina við Kardashian West. Sjálf hafði Jackson farið seint í skóla.
Faðir stjörnunnar var lögmaður O. J. Simpson. Í viðtalinu er eiginmaður Kardashian West, Kanye West, spurður hvort nýjasta útspil stjörnunnar hafi komið honum á óvart. Hann segir svo ekki, hún hafi alltaf haft þetta í sér.
Kardashian fundaði fyrir tæpu ári með Donald Trump í lok maí um fangelsismál og refsingar. Þá tóku þau sérstaklega fyrir mál hinnar 63 ára gömlu Alice Marie Johnson. Trump mildaði síðar dóm Johnson en hún hafði hlotið lífstíðardóm fyrir minni háttar fíkniefnabrot.