Ofurhetjukvikmyndin Avengers: Endgame frá Disney er komin á spjöld sögunnar, en engin kvikmynd hefur verið jafn fljót að sópa að sér einum milljarði Bandaríkjadala í aðgangeyri á heimsvísu. Það tók Endgame aðeins fimm daga.
Myndin hefur fengið glimrandi dóma áhorfenda og hafa kvikmyndahús um víða veröld verið þéttsetin frá því myndin var frumsýnd.
Endgame hefur aflað 350 milljóna dollara tekna í Bandaríkjunum, sem er met á opnunarhelgi, og 330 milljóna dollara tekna í Kína, sem einnig er met þar í landi.
Alan Horn, stjórnarformaður Disney, segir að þessi magnaði árangur kvikmyndarinnar sé vitnisburður um hæfileika þeirra sem komu að gerð myndarinnar og þeirri ástríðu sem farið hefur í að glæða sagnaheim Marvel lífi, en Endgame er 22. kvikmyndin sem byggist á Marvel-teiknimyndasögum.