Nýtt myndband við 15 ára gamalt lag hljómsveitarinnar Bang Gang, lagið Follow, er komið út og er hér frumsýnt á vef mbl.is. Myndbandinu er leikstýrt af Uglu Hauksdóttur og er gert í tilefni af afmælisútgáfu þriggja plata Bang Bang í fyrra, en þær eru væntanlegar í vínylútgáfu á þessu ári.
Um er að ræða „klassískt aldamóta draumpop“ eins og laginu er lýst af meðlimum Bang Gang, en það hljómaði meðal annars í sjónvarpsþættinum The O.C. og nokkrum kvikmyndum, en myndband var aldrei gert við lagið.
Leikstjóri myndbandsins, Ugla Hauksdóttir, útskrifaðist frá Colombia-háskóla og var núverið valin besti kvenleikstjórinn af Directors Guild of America fyrir stuttmyndina How far she went, en Ugla hefur einnig starfað á Íslandi og leikstýrði meðal annars þáttum í Ófærð 2.
„Það var mjög sérstakt að gera tónlistarmyndbönd við lög sem komu út fyrir svona mörgum árum en á sama tíma fannst mér það virkilega spennandi. Sjálf hef ég hlustað á Bang Gang síðan bandið gaf út sitt fyrsta lag og því hafa lögin lifað með manni í langan tíma,“ segir Ugla, en Barði vildi gera myndband við eitt lag af hverri plötu og er myndbandið því hluti af þríleik þar sem ein saga er sögð í gegn um öll myndböndin.
„Fyrir mér var mikilvægt að vinna með “legasíu” bandsins og ég bjó því til ímyndaða karaktera byggða á Barða og Esther Thalíu sem kynnast fyrst sem krakkar í Follow, eru síðan ástfangnir táningar í Sacred Things og loks fullorðin í Ghost from the Past þar sem leiðir skiljast. Þetta var skemmtileg leið til að setja skálskapar-tvist á sögu bandsins og leika okkur með tímaflakk á milli þess sem plöturnar þrjár eru gefnar út.“ segir Ugla.