Lítur þú á Eurovision sem hátíð? Heldurðu Eurovision-partí, skreytirðu híbýli þín eða klæðistu búningum? Veðjarðu um hvaða lag vinnur? Hvað borðarðu þegar þú horfir á keppnina?
Þessara spurninga og margra fleiri er spurt í Eurovision-könnun sem lögð er fyrir á vegum Þjóðminjasafns Íslands á vefsíðu þess.
Framtakið er liður í þeirri starfsemi safnsins að safna upplýsingum um samtímann að sögn Ágústs Ó. Georgssonar, sem er sérfræðingur þjóðháttasafns hjá Þjóðminjasafninu. „Við reynum að vera með puttann á því sem er að gerast í kringum okkur,“ segir Ágúst.