Reyna að lifa í núinu

Of Monsters and Men sló í gegn með fyrstu plötu …
Of Monsters and Men sló í gegn með fyrstu plötu sinni og nú er sú þriðja á leiðinni, níu árum síðar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hljómsveitin Of Monsters and Men (OMAM) hefur látið lítið fyrir sér fara á undanförnum mánuðum enda hefur hún verið önnum kafin í hljóðveri við upptökur á þriðju breiðskífu sinni, Fever Dream, sem kemur út 26. júlí. Fyrsta lagið af þeirri skífu, „Alligator“, kom út fyrir fáeinum dögum og í dag tilkynntu skipuleggjendur tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves að hljómsveitin myndi koma fram á henni í nóvember en um þrjú ár eru liðin frá því sveitin kom síðast fram hér á landi.

OMAM fór með sigur af hólmi í Músíktilraunum árið 2010 og árið 2011 gaf Record Records út fyrstu breiðskífu sveitarinnar, My Head is an Animal. Lagið „Little Talks“ af þeirri plötu náði miklum vinsældum í Bandaríkjunum líkt og hér á landi og vakti m.a. athygli ráðamanna stórfyrirtækisins Universal sem sömdu við hljómsveitina um útgáfu fjögurra platna og var My Head is an Animal sú fyrsta í röðinni. 

Hljómsveitin náði þeim stórkostlega árangri að koma plötunni í sjötta sæti Billboard-listans yfir mest seldu plötur Bandaríkjanna og hafði engin íslensk hljómsveit náð slíkum árangri. Um 55 þúsund eintök voru seld af plötunni í fyrstu viku sölu í Bandaríkjunum og til að fylgja eftir þessum miklu vinsældum lék hljómsveitin vítt og breitt um heiminn og fylgdust Íslendingar með því mikla ævintýri í gegnum fjölmiðla. Síðan eru liðin mörg ár, eins og segir í laginu og hefur hljómsveitin farið í marga tónleikaferðina um heiminn, leikið í spjallþáttum og átt lög í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum, m.a. The Hunger Games og The Walking Dead.
Sveitin sendi aðra breiðskífu frá sér árið 2015, Beneath the Skin, og var hún öllu drungalegri en sú fyrsta. Og ef marka má fyrsta lagið af þriðju plötunni er sveitin orðin enn rokkaðri en áður. Eða hvað?

Blaðamaður hitti tvo liðsmenn OMAM, þau Nönnu Bryndísi Hilmarsdóttur og Ragnar Þórhallsson - Nönnu og Ragga - og ræddi við þau um plötuna, frægðina, framtíðina og sitthvað fleira.

Nanna segir hljómsveitina lítið hafa velt framtíðinni fyrir sér. „Við …
Nanna segir hljómsveitina lítið hafa velt framtíðinni fyrir sér. „Við ætlum bara að gera þetta ógeðslega lengi," segir hún. mbl/Kristinn Magnússon


Flytja „Alligator“ hjá Fallon

„Við erum að fara út núna að spila,“ svarar Nanna þegar blaðamaður spyr hvort hljómsveitin sé komin í frí. „Við erum að fara í Fallon,“ bætir Raggi við og á þar við spjallþátt Jimmy Fallon en hljómsveitin hefur áður komið fram í honum. Hún mun að þessu sinni flytja „Alligator“, fyrsta lagið af plötunni væntanlegu og verður það jafnframt í fyrsta sinn sem hljómsveitin flytur lagið opinberlega. „Þetta verður ógeðslega gaman, spennandi,“ segir Nanna og hlakkar greinilega til og Raggi segir hljómsveitina hafa „æft grimmt“ fyrir þessa uppákomu hjá Fallon sem er einn vinsælasti spjallþáttastjórnandi heims.

OMAM er þekkt hljómsveit og vinsæl og því eðlilega mikið havarí í kringum hana og skipulag. Nanna og Raggi eru spurð að því hversu miklu þau ráði sjálf, t.d. hvaða lag ætti að heyrast fyrst af plötunni nýju og segir Nanna að hljómsveitin hafi fengið að ráða því sjálf. „Við vorum sammála með þetta lag, bæði við og útgáfan, það meikaði rosa mikinn sens alveg frá upphafi,“ segir hún og Raggi tekur undir það. „Þetta var eiginlega fyrsta lagið sem við vissum að yrði á plötunni. Svo er orkan í því þannig að þetta er góð byrjun á ferli,“ segir hann.
Nanna og Raggi segja lagið ekki dæmigert fyrir plötuna í heild. „Það er svolítið „in your face“, kemur inn með látum en er ekkert voðalega góð lýsing á plötunni,“ segir Nanna, „platan verður ekkert öll svona“.

– Lagið virkar hrárra og rokkaðra en fyrri lögin ykkar og er býsna langt frá fyrstu plötunni þótt enn megi greina ákveðinn samhljóm.

Nanna og Raggi taka undir þetta. „Þetta er nær manni, einhvern veginn,“ segir Raggi, „svolítið mikið rokk miðað við restina af plötunni en lagið minnir alveg á lög af fyrstu plötunni, t.d. „Six Weeks“. Þegar við spilum þetta „live“ held ég að þetta passi alveg vel inn í settið“.

Nanna segir hljómsveitina óhrædda við að prófa eitthvað nýtt þó að alltaf megi heyra OMAM-hljóminn góða. „Okkur finnst það skemmtilegt,“ segir hún.

Nanna á tónleikum með Of Monsters and Men í Hljómskálagarðinum …
Nanna á tónleikum með Of Monsters and Men í Hljómskálagarðinum fyrir sjö árum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ekki lengur lítil og krúttleg

En hvernig er OMAM í dag miðað við þá sem keppti í Músíktilraunum fyrir níu árum? „Ég man alltaf eftir því þegar við komum aftur ári eftir að við unnum Músíktilraunir og spiluðum, þá voru einhverjir að segja að þetta væri svikin vara, að við værum ekki sama hljómsveitin ári síðar,“ segir Raggi sposkur og Nanna hlær að þeim ummælum. „Við vorum svo lítil og krúttleg þegar við unnum og svo var bara komið band!“ bætir Raggi við. Nanna var 21 árs þegar OMAM keppti í Músíktilraunum en Raggi 23 ára. „Bara „babies“,“ segir Nanna brosandi, nýorðin þrítug og Raggi bendir á að þrátt fyrir ungan aldur hafi hann verið kominn á síðasta séns með að keppa í Músíktilraunum sökum aldurs.

Halda mætti að liðsmenn hljómsveitarinnar byggju allir erlendis vegna tíðra tónleikaferða um heiminn en svo er ekki, OMAM býr öll á Íslandi og hefur gert í tvö ár eða þar um bil. Auk þess var platan nýja tekin upp hér á landi, í hljóðveri hljómsveitarinnar í Garðabæ. „Við fórum bara út til að mixa plötuna,“ útskýrir Nanna. Það gangi ágætlega að búa á Íslandi og halda reglulega í víking til Evrópu og annarra heimsálfa en að vísu fylgi hljómsveitinni mikið hafurtask, tæki og alls konar hljóðfæri og annað dót. Raggi tekur undir þetta og segir helst til mikið hafa fylgt sveitinni í síðustu tónleikaferð. „Það var rosalega mikið dót!“ segir hann með áherslu.

Alltaf á fullu

Fimm tónlistarmenn skipa OMAM í dag, auk Nönnu og Ragga þeir Brynjar Leifsson, Arnar Rósenkranz Hilmarsson og Kristján Páll Kristjánsson en Árni Guðjónsson sagði skilið við sveitina fyrir nokkrum árum. Sá kvittur komst á kreik eftir síðustu tónleikaferð að hljómsveitin væri hætt því lítið sem ekkert spurðist til hennar en þeir sem fylgjast með OMAM á Facebook vita að hún var og er sprelllifandi og í fullu fjöri.

Nanna segir hljómsveitina hafa einbeitt sér algerlega að plötunni nýju, Fever Dream, og látið lítið fyrir sér fara á meðan. „Við þurftum bara aðeins að fá að gleyma okkur,“ segir hún og Raggi bendir á að eftir að síðasta plata kom út, fyrir fjórum árum, hafi hljómsveitin verið á ferð og flugi í um tvö ár. Að ferðalagi loknu hafi næsta plata tekið við.

„Við erum búin að vera á fullu allan tímann en eins og tímarnir eru núna, fólk að dúndra út lögum, er hætt við því að maður gleymist,“ segir Raggi kíminn og Nanna hlær að því að fólk hafi haldið að hljómsveitin væri hætt. „Við erum búin að vera á milljón!“ segir hún og bætir við að að ef til vill hafi hljómsveitin ekki verið nógu dugleg að láta vita af sér.

OMAM gaf sér góðan tíma í að semja og taka upp Fever Dream og segir Nanna að hljómsveitin hafi tekið meðvitaða ákvörðun um að gera hlutina aðeins öðruvísi en áður. Það hafi verið nauðsynlegt. Raggi segir að hljómsveitin hafi ekki verið alveg sammála í fyrstu um hvaða stefnu skyldi taka. „Við vorum að reyna að byrja eins og við gerðum á fyrstu og annarri plötu og það er bara ekki spennandi. Þetta tók kannski lengri tíma, lögin voru lengur með okkur og lengur að þróast og ég held að það sé gott,“ segir hann.

Umslag Fever Dream.
Umslag Fever Dream.

Jón sá um myndlistina

OMAM hefur alltaf lagt mikið upp úr sjónrænum þætti listar sinnar og myndböndin við lög hljómsveitarinnar hafa vakið athygli fyrir hversu mikið er lagt í þau. Myndbandið við „Alligator“, fyrsta lagið af Fever Dream, er í þeim anda, fljótandi málning í öllum regnbogans litum og hinum ýmsu formum. Og umslag plötunnar er líka litríkt og sýnir gróflega málað verk af auga á bleikum grunni.

Nanna og Raggi eru spurð að því hvort þarna sé plötunni lýst með myndrænum hætti. „Já, ég myndi segja það. Okkur langaði með þessari plötu að vera með meiri litagleði, hafa þetta aðeins hrárra og meiri orku,“ segir Nanna. Hljómsveitin hafi viljað að sjónræni þátturinn, myndlistin, endurspeglaði tónlistina og hafi því leitað til Jóns Sæmundar Auðarsonar myndlistarmanns. „Hann málar allt sem þú munt sjá nema vídeóið við „Alligator“, annar listamaður gerði það en allt sem kemur út með þessari plötu er frá Jóni,“ segir Raggi. „Hann er með svo fallega nærveru og það er svo gaman að vinna með honum.“

Raggi segir jákvæða orku að finna á plötunni og Nanna tekur undir þau orð. „Þetta er mjög jákvæð plata fyrir okkur,“ segir hún og að Jón Sæmundur hafi einfaldlega málað á meðan hann hlustaði á lögin af plötunni. „Hann var með okkur allt ferlið,“ segir Nanna.

Hér má sjá myndbandið við „Alligator“ með texta:

Meðvirk og kurteis

– Nú eruð þið orðin svo þekkt og vinsæl, hversu mikið er verið að stýra ímynd hljómsveitarinnar, t.d. myndatökum? Er einhver stílisti sem segir ykkur að vera í rauðum og svörtum fötum, til dæmis?

Nanna hlær að þessu og Raggi segir að hún hafi einfaldlega hringt í stílista sem hún fílaði fyrir myndatökuna sem blaðamaður vísar til. „Við höfðum bara samband við hana og unnum svo með henni,“ segir Raggi og Nanna bætir við að liðsmenn OMAM séu of miklir þverhausar til að láta aðra stjórna sér.

– Hvernig er samstarfið milli ykkar í hljómsveitinni, ræður eitthvert ykkar meiru en hin eða ríkir algjört lýðræði innan hennar?

„Nei, við erum voðalega meðvirk og kurteis,“ segir Raggi og þau Nanna hlæja að þeirri lýsingu. „Það er mikil virðing á milli okkar, við virðum hvert annað mikils og hlustum vel hvert á annað. Stundum getum við verið endalaust að hlusta á hvert annað,“ bætir Raggi við og Nanna kinkar kolli því til staðfestingar.

Hljómsveitin er skipuð fimm tónlistarmönnum sem fyrr segir en á tónleikaferðum bætast nokkrir gestahljóðfæraleikarar við hópinn. „Síðast vorum við níu á sviði, með fjóra „session“-leikara með okkur en núna erum við í miðju ferli að setja saman sjóið og fatta hvernig við ætlum að hafa þetta,“ segir Nanna.

– Finnst ykkur erfitt að finna jafnvægi milli þess sem listamannshjartað vill og þess sem markaðurinn vill? Þið þurfið auðvitað líka að láta fólk fá það sem það biður um.

„Ég held við séum ekki mjög upptekin af því eða alla vega ekki ég. Þessi plata er drullupoppuð en við erum það bara!“ svarar Nanna og Raggi tekur í sama streng. „Mér finnst svolítill misskilningur að tónlistarmenn séu alltaf að reyna að vera eitthvað abstrakt og artí og að það sé meiri list. Stundum vill listamannshjartað bara gera eitthvað sem hægt er að dansa við,“ segir hann. Nanna bætir við að þau vilji einfaldlega ná til fólks með sinni listsköpun.


Uppi á svölum í GoT

OMAM hefur komið víða við á undanförnum níu árum og meðal annars í vinsælustu sjónvarpsþáttum heims hin síðustu ár, Game of Thrones. Hljómsveitin lék þar á fornfáleg hljóðfæri og sást rétt svo bregða fyrir uppi á svölum í einu atriði þáttanna þrátt fyrir að hafa verið á tökustað í þrjá daga.

Nanna og Raggi hlæja að þessu skemmtilega ævintýri. „Þetta byrjaði allt með því að Arnar trommara langaði til að vera statisti í svörtum kufli með spjót og að Jon Snow myndi kannski ganga fram hjá honum,“ segir Raggi sposkur. Hann segist ekki muna hvernig það kom til að OMAM var svo boðið að koma fram í einum þáttanna en líklega hafi umboðsmaður verið settur í málið.

Nanna segir bráðfyndið að þau hafi endað uppi á svölum og aðeins sést í fáeinar sekúndur í þættinum. „Vinnan var svo mikil á bak við þetta, við vorum öll í svakalegum búningum og allt var óaðfinnanlegt,“ segir Nanna og Raggi bætir við að Kristján hafi verið með rándýra hárkollu á höfði sem hafi svo varla sést þegar á hólminn var komið.

Of Monsters And Men klædd rauðu og svörtu og nokkrum …
Of Monsters And Men klædd rauðu og svörtu og nokkrum hvítum skóm á kynningarmynd sem send var fjölmiðlum. Ljósmynd/Meredith Truax


Meira stress að spila á Íslandi

– Hvernig finnst ykkur tónlistarbransinn vera nú þegar þið eruð komin með áralanga reynslu af honum og hafið farið í marga heimstónleikaferðina?

„Ég held að hann sé að breytast mjög mikið frá því við túruðum síðast,“ svarar Raggi, „hljómsveitir eru færri og sólóartistar fleiri, plötusala minni og allir að hlusta á Spotify og Apple Music“. Nanna segir líka forvitnilegt að skoða aðsókn að tónleikum og Raggi segist hafa heyrt að því að hún fari minnkandi. En hvernig ætli standi á því? Nanna og Raggi segjast ekki átta sig á þessari þróun og eru sammála blaðamanni í því að ekkert komi í stað tónleika, að vera á staðnum og njóta lifandi tónlistarflutnings.

OMAM heldur í næstu tónleikaferð í haust og ætlar að æfa hér heima fram að því. Og svo er það Iceland Airwaves í nóvember en ekki hefur enn verið tilkynnt hvaða dag OMAM stígur á svið eða á hvaða tónleikastað. Hvernig skyldi það leggjast í þau Nönnu og Ragga að spila aftur á Íslandi eftir þriggja ára hlé? „Ég get bara ekki beðið eftir að standa aftur á sviði,“ segir Raggi, „maður gerir þetta í mörg ár og gerir þetta svo allt í einu ekki í nokkur ár og þá bara vantar eitthvað.“

– Nú heyrir maður tónlistarmenn oft tala um að það sé meira stress að spila í eigin landi en öðrum…

– „Já, það er miklu meira stressandi að spila á Íslandi,“ svarar Nanna og Raggi tekur undir með henni. „Maður týnist ekki jafnmikið í þvögunni hérna,“ segir hann kíminn.
Alltaf gaman

– Nú eru elstu lögin ykkar orðin níu ára, eruð þið ekkert orðin leið á að spila sum þeirra, t.d. „Little Talks“?

„Mér finnst bara alltaf erfitt að þurfa að gera eitthvað sem ég var að gera fyrir tveimur árum, ég á erfitt með það, vil alltaf bara halda áfram. En nei, nei, við höfum aðeins verið að spila þetta til núna og ég held við setjum þetta bara í nýjan búning og gerum spennandi,“ segir Nanna og Raggi segir að það taki bara um þrjár mínútur að dúndra út einu lagi á tónleikum.

„Svo er fólk að öskra með og það er alltaf gaman. Auðvitað eru alveg textabrot sem maður fær kjánahroll yfir en það er bara eins og það er,“ segir Raggi.

Nanna segir alltaf gaman að spila „Little Talks“, einn mesta smell OMAM frá upphafi. „Þegar maður fær viðbrögðin og sér að fólki finnst þetta geggjað og syngur með þá verður maður bara glaður.“

„Maður á bara að vera ánægður með að hafa samið svona lag,“ bætir Raggi við og hittir þar naglann á höfuðið. Nanna segir það einmitt málið, „Little Talks“ hafi gefið þeim mikið.


„Ætlum bara að gera þetta ógeðslega lengi“

– Hafið þið rætt framtíð hljómsveitarinnar, hvort þið verðið enn að eftir tíu ár til dæmis?

„Þetta eru svo stórar spurningar!“ segir Nanna og skellihlær að blaðamanni sem viðurkennir að stórt sé spurt. „Nei, nei, við ætlum bara að gera þetta ógeðslega lengi,“ segir hún og Raggi segir sveitina ekki hafa rætt þau mál meðvitað. „Á meðan okkur langar að gera þetta þá höldum við áfram,“ segir hann og Nanna bætir við að hana langi ekki að gera neitt annað.

„Maður reynir að lifa í núinu í þessu, veit alveg að þetta er ekki sjálfgefið og þetta er brútal bransi. Við erum komin með góðan hóp af aðdáendum og þó að við séum ekki búin að gefa út í langan tíma er alltaf verið að hlusta á okkur og við erum alltaf að fá skilaboð. Þannig að við erum spennt að fá að spila aftur fyrir þetta fólk,“ segir Raggi að lokum.

Hér má sjá myndband við ofursmellinn umrædda, „Little Talks“:

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar