True Romance á Íslandi

Með hlutverk Lóu og Ólivers í Eden fara Telma Huld …
Með hlutverk Lóu og Ólivers í Eden fara Telma Huld Jóhannesdóttir og Hansel Eagle sem er listamannsnafn Ævars Arnar Jóhannssonar.

Sýningar hefjast í dag á Eden, þriðju kvikmynd leikstjórans, handritshöfundarins og Bolvíkingsins Snævars Sölvasonar í fullri lengd. „Eden fjallar um par, Lóu og Óliver, sem lifa á jaðrinum. Þau kynnast strax í upphafi, hann er á flótta undan réttvísinni og hún er partístelpa sem er komin í klandur. Þau eru heimilislaus, fella fljótlega hugi saman og komast að því að þau eiga sér sameiginlega drauma og einlæga sem þau vilja að rætist. Þau ákveða að færa björg í bú með því að fara í smásölu á götunni, selja gras og annað þvíumlíkt og ætla sér að kýla á draumana. En á þeirri leið komast þau í klandur og komast upp á kant við vafasama menn,“ segir Snævar um umfjöllunarefni kvikmyndarinnar. Með hlutverk Lóu og Ólivers fara Telma Huld Jóhannesdóttir og Hansel Eagle sem er listamannsnafn Ævars Arnar Jóhannssonar.

Leikstjórinn undirbýr næstu töku.
Leikstjórinn undirbýr næstu töku.



Adam og Eva í Reykjavík


–Titillinn er væntanlega vísun í Biblíuna?
„Jú, algjörlega og í raun og veru kviknaði hugmyndin út frá því að ég var að grúska í Biblíunni út af öðru verkefni. Ég var að lesa kaflann um Adam og Evu og þá bara kviknar þessi hugmynd. Adam og Eva voru par sem braut nú ekki mikið af sér en var þó gert útlægt og þurftu að lifa á jaðrinum eftir það. Það er til frægt málverk af þeim þar sem þau eru að hrökklast úr Eden og það er engill með sverð sem bendir á útgönguleiðina,“ svarar Snævar. Þannig hafi hann fengið hugmyndina að kvikmynd um par í Reykjavík sem lifir á jaðrinum.
–Þú skrifaðir handritið og þá varla út frá eigin reynslu, eða hvað?
„Nei, nei, en einn vinur minn var að selja svona á götunni og ég fékk að hanga með honum, eins og sagt er, vera á rúntinum og sjá svolítið svona hluti,“ segir Snævar. Sú upplifun hafi að hluta skilað sér í handritið en hann hafi hins vegar ekki viljað hafa kvikmyndina algjört raunsæisverk. „Ég vildi að sjálfsögðu fá aðeins andrúmsloftið og bara aðeins kynnast þessu en mig langaði samt að gera alvörubíó,“ segir Snævar. Kvikmyndin sé með kunnuglegu þema úr kvikmyndasögunni, elskendum á flótta, eins og sjá má í kvikmyndum á borð við Bonnie og Clyde og True Romance.

Lóa og Óliver grá fyrir járnum.
Lóa og Óliver grá fyrir járnum.



Trainspotting veitti innblástur


„Mig langaði að gera True Romance á Íslandi,“ útskýrir Snævar. Aðalpersónur myndarinnar séu bara krakkar að selja gras eða pillur, ekki fólk í svörtum hettupeysum í húsasundum. „Það er kannski bara að hlusta á létta jólatónlist í útvarpinu á meðan verið er að setja í poka og vigta og tala um nýja heimildarmynd á Netflix,“ segir Snævar. Það hvíli enginn dauði og drungi yfir Eden heldur þvert á móti slegið á létta strengi inn á milli. Myndin sé því blanda raunsæis, spennu og gríns.
Snævar segist einnig hafa litið mikið til Trainspotting þar sem persónur þeirrar myndar séu litríkar og oft spaugilegar. „Þetta eru allt stórfurðulegir karakterar og þú hlærð mikið að því sem þeir lenda í en öðru hverju lenda þeir í alveg hrikalegum aðstæðum,“ útskýrir Snævar og nefnir atriði úr Trainspotting þar sem barn finnst látið í vöggu og annað þar sem ein aðalpersónan missir saur í rúmi unnustu sinnar. Í Eden, líkt og Trainspotting, megi sjá litríkar persónur í krefjandi aðstæðum.

Viðtalið má lesa í heild í Morgunblaðinu í dag. Hér má sjá stiklu fyrir kvikmyndina: 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar