Rúmlega sjö þúsund manns hafa lagt leið sína í Víkingsheimilið það sem af er þessum degi þar sem fjöldi netverslana hafa sameinast undir einu þaki og bjóða upp á fjölbreytt vöruúrval. Að markaðnum standa vinkonurnar Olga Helena Ólafsdóttir, Eyrún Anna Tryggvadóttir og Sara Björk Purkhús, en þær reka allar sínar eigin netverslanir.
Markaðurinn opnaði á slaginu ellefu í morgun og að sögn Olgu Helenu voru þó nokkrir farnir að tínast inn í Víkingsheimilið áður en dyrnar að markaðnum voru opnaðar.
Olga Helena fjárfesti í talningavél, í netverslun að sjálfsögðu, fyrir síðasta markað og hefur hún komið að góðum notum í dag og segir hún gaman að fylgjast með streymi gestanna. „Þetta hefur verið mjög þægilegt og það rúmast vel um viðskiptavinina,“ segir Olga Helena.
Um 60 netverslanir taka þátt í markaðnum og er hann opinn til klukkan 17 í dag. Á morgun verður sömuleiðis opið milli klukkan 11 og 17.
Markaðurinn um helgina er hugsaður sem hátíð jafnt sem verslunarviðburður, eins konar sumarhátíð netverslana. Hoppukastali er á svæðinu fyrir börnin og munu íbúar Latabæjar gleðja gesti og gangandi, líkt og í dag.
Nýjar verslanir sem hafa ekki verið með áður á markaðnum munu bjóða upp á vörur sínar um helgina í bland við verslanir sem hafa áður tekið þátt. Lista yfir allar netverslanirnar sem taka þátt má finna á Facebook og meðal vara sem verða í boði eru heimilisvörur, fatnaður, skartgripir, barnavörur, íþróttavörur, skipulagsvörur, gjafavörur, umhverfisvænar vörur og fleira.