Grúppía númer eitt

„Ég segi oft að ég sé Eurovision-grúppía frekar en Eurovision-nörd,“ …
„Ég segi oft að ég sé Eurovision-grúppía frekar en Eurovision-nörd,“ segir Laufey Helga Guðmundsdóttir sem ræður sig ekki í vinnu nema öruggt sé að hún fái frí í maí. mbl.is/Ásdís

Eurovision-áhuginn kom með móðurmjólkinni að sögn Laufeyjar Helgu Guðmundsdóttur sem má með sanni kalla einn dyggasta aðdáanda Eurovision hér á landi. Laufey er nú í Ísrael á sinni níundu keppni og segist fullviss um að Hatari komist á úrslitakvöldið. 

Ertu búin að haga því þannig að þú fáir alltaf frí í vinnu í maí?

„Já, ég ræð mig ekki í vinnu nema ég fái frí í maí til að fara á Eurovision,“ segir hún og bætir við þegar blaðamaður hlær: „Þetta er dauðans alvara.“

Sef varla í maí

„Ég á afmæli í maí og kannski í minningunni er afmælið mitt alltaf í kringum Eurovision,“ segir Laufey, spurð um upphafið að áhuganum.

„Hér á Íslandi horfa allir á Eurovision sem tíðkast ekki annars staðar í Evrópu. Við erum með mesta áhorf alla landa sem senda út Eurovision, um 95%. Í byrjun datt maður í þennan Eurovision-partífíling með tilheyrandi leikjum og búningum. Svo var það orðið þannig að ég var ein eftir í partíinu sem horfði á Eurovision, og þá var betra að vera bara heima með stigatöfluna og excel-skjalið fyrir framan sig,“ segir Laufey og segir þetta hafa undið upp á sig með árunum.

Laufey náði mynd af sér með Nettu frá Ísrael, sem …
Laufey náði mynd af sér með Nettu frá Ísrael, sem stóð uppi sem sigurvegari í fyrra.


„Að fara á Eurovision er það skemmtilegasta sem ég veit, ég sef ekki vegna spennu. Ég er bara svo spennt og sef varla allan maí mánuð.“

Miklu meira en full vinna

„Þetta er miklu meira en full vinna. Tveimur vikum áður en æfingar hefjast sef ég svona þrjá tíma á nóttu. Ég þarf að sinna minni venjulegu vinnu og undirbúa það sem þarf fyrir Eurovision. Síðan tók ég upp á því í bríaríi að halda fyrirlestra eða kynningar um Eurovision á vinnustöðum. Fólk hefur svo mikinn áhuga á Eurovision og einhvern veginn enduðu hádegishléin þar sem ég var að vinna í velferðarráðuneytinu inni í fundarherbergi þar sem ég sýndi fólki hvað væri að gerast. Fólki fannst þetta svo skemmtilegt þannig að þegar ég hætti þar fór ég að fara á milli vinnustaða með Eurovision-kynningar, eða það sem ég kalla Júrógigg,“ segir hún og brosir.

Laufey segist trúa að sænska lagið vinni í ár. Hér …
Laufey segist trúa að sænska lagið vinni í ár. Hér er hún með sænska flytjandanum, John Lundvik.

Þetta er lífsstíll

Blaðamanni verður á orði að augljóst sé að allur maí og jafnvel hálfur apríl sé undirlagður undir Eurovision. Sú staðhæfing reyndist mjög fjarri sannleikanum.
„Það er hægt að upplifa Eurovision allt árið, þetta er lífsstíll,“ segir Laufey sem segist eiga vini sem undrast að hún sé að tala um Eurovision snemma í janúar. „Þá eru öll löndin að undirbúa lögin sín! Árið skiptist í nokkra hluta; í desember og fram í mars erum við að fylgjast með öllum undankeppnum og erum með öfluga umfjöllun á fases.is. Allt um skandala og ekki skandala,“ segir hún. 

Á meðan við hin fögnum sumri tekur við að loknu Eurovision afar dapurlegt tímabil að sögn Laufeyjar. „Þá byrjar „post Eurovision depression“-tímabil, sem við köllum alltaf PED, eða peddið. Eða á íslensku: eftirsöngvakeppnisbringsmalaskottan, eða ESB. Bringsmalaskotta er gamalt orð yfir þunglyndi. Við leggjum sérstakan metnað í að íslenska öll svona Eurovision-heiti,“ segir hún.

Eurovision-aðdáendurnir Flosi Jón Ófeigsson og Laufey Helga sjást hér á …
Eurovision-aðdáendurnir Flosi Jón Ófeigsson og Laufey Helga sjást hér á sjálfu með Salvador Sobral, portúgalska söngvaranum sem vann Eurovision árið 2017.


Fíla Hatara í botn

Spáir þú Hatara góðu gengi?

„Ég held að við munum komast upp úr blessaðri undankeppninni í fyrsta sinn síðan 2014 og ég hlakka til þess. Við erum í verri undankeppninni og þarna eru ekki mjög sigurstrangleg lög þannig að við eigum meiri möguleika. Svo dró Úkraína sig út úr keppni og þeir voru í okkar riðli. Þannig að við keppum við einum færri,“ segir hún. 

„Þeir eru agalega vinsælir. Annaðhvort elskar fólk þá eða hatar. En í öllu falli er þetta mjög flott sviðsetning, vel flutt lag og góð lagasmíð. Þetta dregur fólk að skjánum,“ segir Laufey. 

Heldur þú að Ísland vinni einhvern tímann?

„Það væri hámarkið á þessum Eurovision-tryllingi. Við erum öll að bíða eftir því og það mun gerast.“

Viðtalið í heild er í sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 


Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert að uppgötva nýja hluti og þarft að gefa þér tíma til að njóta þeirra sem best þú getur. Þú átt á hættu að vera misskilinn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert að uppgötva nýja hluti og þarft að gefa þér tíma til að njóta þeirra sem best þú getur. Þú átt á hættu að vera misskilinn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar