Hollywood-stórstjarnan Doris Day er látin, 97 ára að aldri. Í tilkynningu frá The Doris Day Animal Foundation segir að leikkonan hafi látist á heimili sínu í Carmel-dalnum í Kaliforníu í morgun umkringd sínum nánustu.
Doris Mary Ann Kappelhoff fæddist 3. apríl 1922 og hóf feril sinn sem söngkona aðeins 15 ára gömul. Síðar varð hún leikkona og varð ferill hennar gíðarlega farsæll og er hún líklega stærsta kvenstjarnan í Hollywood frá upphafi. Hún er þekktust fyrir leik sinn í myndunum Pillow Talk, Calamity Jane, The Pajama Game og Move Over Darling.
Hátindur ferils hennar var án efa á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar þegar hún fór með hlutverk í fjölmörgum rómantískum gamanmyndum en hún naut einnig góðs orðstírs sem söngkona. Hæfileikar hennar nutu sín líklega einna best í myndinni The Man Who Knew Too Much frá árinu 1956 þarsem hún fór með hlutverk Josephine “Jo” Conway McKenna og söng meðal annars lagið Que Sera, Sera.
Á sínum efri árum var Doris ötul baráttukona fyrir velferð dýra og stofnaði samtök í þeirri baráttu, The Doris Day Animal Foundation.