Jóhann Ólafsson
skrifar frá Tel Aviv
Eftir frekar rólegan dag í gær verður nóg að gera hjá liðsmönnum Hatara í dag. Þeir verða til viðtals við marga af stærstu fjölmiðlum heims, þar á meðal CNN og BBC. Þegar tveir dagar eru í úrslit Eurovision er enn kallað eftir því að hljómsveitin mótmæli stjórnvöldum í Ísrael.
Í kvöld ræðst hvaða tíu lög komast áfram úr seinni undanriðlinum en á meðal þátttökuþjóða eru frændur okkar frá Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Riðillinn í kvöld þykir sterkari en riðill Íslands á þriðjudag en auk áðurnefndra landa er þar að finna sigurstranglegasta lag keppninnar; framlag Hollands.
Á meðan undanriðillinn fer fram munu Hatarar ræða við erlenda fjölmiðla. Ýmsir aðdáendur þeirra heima á Íslandi bíða eftir því að hljómsveitin tali hreint út um stöðuna í Ísrael og Palestínu.
Tónlistarmaðurinn Jón Ólafsson fjallaði til að mynda um málið á Facebook í gær. Hann sagði keppnina auðvitað rammpólitíska og að þjóðir eins og Ísrael notfæri sér hana til að fegra ímynd sína.
Fram kemur í athugasemdum við færslu Jóns að vonir standi til að Hatari geri eitthvað afgerandi í úrslitunum á laugardag.
Heldur hefur dregið úr ummælum Hatara varðandi ástandið hér í Ísrael og Palestínu síðustu daga eftir að Jon Ola Sand, framkvæmdastjóri Eurovision, tók þá á teppið og herti á ólinni.