Takmörk þess hvað má og má ekki þegar kemur að pólitískum áróðri í Eurovision eru ósýnileg. „Enginn veit hvar þau liggja,“ segir Matthías Tryggvi Haraldsson, annar söngvara Hatara, í viðtali við sænska ríkissjónvarpið um áminningu sem þeir fengu frá Jon Ola Sand fyrir að vera of pólitískir, líklega vegna ummæla sinna þess efnis að þeir vildu sjá hersetu Ísraelsmanna á landsvæði Palestínumanna lokið.
Ummælin létu þeir falla á blaðamannafundi snemma í keppninni, en samkvæmt frétt svt voru þeir kallaðir á fund framkvæmdastjóra keppninnar, Jon Ola Sand, nokkrum dögum síðar.
„Okkur var sagt að við hefðum farið yfir strikið,“ segir Matthías Tryggvi í viðtalinu. Hann segir að hljómsveitin hafi verið pólitísk frá fyrsta degi og því viti hann ekki nákvæmlega hvenær þeir hafi farið yfir strikið.
„Það er erfitt að fylgja reglum sem enginn þekkir hvernig eða hvort á að nota. Okkar skilaboð eru ekki fjandsamleg. Við viljum frið og samstöðu.“
Jon Ola Sand hefur áður sagt að skipuleggjendur Eurovision treysti því að íslenska framlagið skilji að keppnin eigi að vera ópólitísk og að hljómsveitin muni virða þá reglu. Matthías er því ósammála. „Tel Aviv er búbbla og að skipuleggja keppnina hér er mjög pólitískt. Að syngja um ást án þess að viðurkenna raunveruleikann.“